Milliriðill 4. flokks

Annað af tveimur B-liðum 4. flokks karla í handbolta lék í milliriðli í dag. Fyrir hafði liðið þegar unnið einn leik sem telur til milliriðils. Ekki gekk nægilega vel hjá strákunum í dag og töpuðu þeir tveimur leikjum. Þeir munu því leika í 2. deild í vetur. Það gæti hins vegar verið hið fínasta mál fyrir þá því þar ættu þeir að fá leiki sem þeir geta fengið mikið út úr í vetur og tíma til að vinna þeim þeim hlutum sem þeir þurfa að vinna í.

 

Strákarnir mættu Þrótti í fyrri leiknum. Jafnræði var lengst af í leiknum og liðin skipust á að hafa forystuna. Til að byrja með var KA skrefinu á undan en rétt fyrir hálfleik nær Þróttur tökunum á leiknum og leiðir 9-8 í hálfleik. Í seinni hálfleik voru Þróttarar aðeins á undan en þegar 4-5 mínútur voru eftir jafnar KA í 16-16. Þróttur spilaði hins vegar betur í lokin og vann 19-17 sigur.

 

Í seinni leiknum mætti KA liði Gróttu. Grótta náði strax forystunni og fór í 8-3. KA minnkaði muninn hins vegar í 8-6 með mjög góðum kafla þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Það sem eftir var af fyrri hálfleik skoraði Grótta hins vegar nær stanslaust og staðan 13-6 í hálfleik. Í seinni hálfleik komst KA aldrei nær Gróttu og vann Grótta að lokum sannfærandi sigur.

 

KA menn sýndu oft á tíðum flotta hluti í leikjunum og áttu góða kafla. Þessir kaflar voru bara ekki alveg nægilega langir. Aðalvopn liðsins er varnarleikurinn, en mikið vantaði þar uppá  og hann varð liðinu að falli í dag. Gegn Þrótti t.d. voru leikmenn að missa mikið í gegnum sig og ekki að loka nægilega vel og geta KA-menn ekki leyft sér það.. Sóknarleikurinn var oft góður, sérstaklega gegn Þrótti þar sem menn sýndu mjög flotta hluti og þegar menn fóru í finturnar og skotin af fullum krafti þá gekk það eftir. Það vantaði bara oft upp á þennan kraft og ákveðnin ekki alveg nægileg.

 

Strákarnir spila eins og áður sagði í 2. deild. Þar er grundvöllur og staður fyrir þá að reyna að taka framförum og vinna í því sem þarf. Menn í liðinu eru að prófa nýjar stöður og fá öðruvísi hlutverk en þeir hafa haft áður og verða þeir að nota veturinn eins vel og þeir mögulega geta til að vinna í því. Þetta tekur allt tíma en dugnaðurinn er til staðar hjá strákunum.