Myndaveisla frá stórsigri KA/Þórs á HK

Handbolti
Myndaveisla frá stórsigri KA/Þórs á HK
Frábær frammistaða í gær (mynd: Egill Bjarni)

KA/Þór fékk HK í heimsókn í Olísdeild kvenna í handbolta í gær. Aðeins munaði einu stigi á liðunum fyrir leikinn en þau börðust hart um sæti í úrslitakeppninni á síðustu leiktíð og reiknuðu því flestir með hörkuleik.

Egill Bjarni Friðjónsson ljósmyndari var á leiknum og býður til myndaveislu frá leiknum og kunnum við honum bestu þakkir fyrir.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Svo fór nú aldeilis ekki, stelpurnar okkar mættu gríðarlega vel stemmdar til leiks, léku öflugan varnarleik og þar fyrir aftan var Matea Lonac í ham og varði hvert skotið á fætur öðru. Sóknarleikurinn hrökk svo í gang en þar fór Ásdís Guðmundsdóttir fyrir liðinu sem raðaði inn mörkunum.

Staðan var skyndilega orðin 8-2 og virtust gestirnir ekki hafa nein svör við frábærum leik okkar liðs. Þeim tókst reyndar að koma með smá áhlaup um miðbik fyrri hálfleiks en stelpurnar voru fljótar að kvitta fyrir það og leiddu 16-10 í hléinu.

Það sama var uppi á teningunum í þeim síðari, stelpurnar héldu haus og juku einfaldlega við forskotið og sigur liðsins var aldrei í hættu. Að lokum vannst afar sannfærandi 31-19 sigur þar sem allir leikmenn KA/Þórs á skýrslu fengu að spreyta sig.

Ásdís Guðmundsdóttir var markahæst með 13 mörk og það úr 13 skotum sem er stórkostleg tölfræði en fimm marka hennar komu af vítalínunni. Rakel Sara Elvarsdóttir gerði 5 mörk, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 4, Aldís Ásta Heimisdóttir 3, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 2, Telma Lísa Elmarsdóttir 1, Rut Jónsdóttir 1, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1 og Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 1 mark.

Í markinu varði Matea Lonac 17 skot sem gerir 51,5% markvörslu sem er frábært afrek. Sunna Guðrún Pétursdóttir fékk svo síðustu mínúturnar og varði eitt skot.

Frábær sigur staðreynd og mikilvæg tvö stig í hús. Stelpurnar fóru tímabundið á topp deildarinnar með sigrinum en Valskonur endurheimtu toppsætið með sigri á FH í kjölfarið. Þessi lið mætast svo á laugardaginn á Hlíðarenda og ljóst að þar verður hart barist.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is