Myndir frá ferð 4. flokks karla til Ólafsfjarðar

4. flokkur karla í handbolta fór um helgina í æfingaferð til Ólafsfjarðar. Þar var m.a. æft það sem lagt verður upp með í vetur en forkeppni fyrir Íslandsmótið er eftir tvær vikur hjá flokknum. Einnig var þetta gott tækifæri fyrir hópinn að ná enn betur saman. 27 drengir fóru í ferðina en nokkrir komust ekki með þar sem þeir voru í öðrum landshluta eða jafnvel erlendis. Ferðin heppnaðist mjög vel og verða hér birtar myndir frá ferðinni.

Ólafsfirðingar tóku vel á móti okkur og voru mjög liðlegir. Í bænum er frábær aðstaða til íþróttaiðkunar og fengum við að njóta góðs af því. Við kunnum þeim bestu þakkir fyrir allt saman.

Líkt og áður sagði var æft af krafti og vel tekið á því. Þess á milli nutu strákarnir tilverunnar saman á svæðinu en við höfðum aðsetur í skíðaskálanum og gisti hópurinn þar yfir laugardagsnóttina. Ýmislegt var gert um helgina eins og sjá má á myndunum. Mikil samstaða og góður andi er í hópnum en til að mynda höfðu menn bakað tvær 3ja hæða súkkulaðitertur og komið með fyrir hópinn í kvöldkaffi auk þess að bjóða öllum upp á bragðgóðan hafragraut í morgunmat.

Þessi ferð og það sem strákarnir gerðu um helgina er vonandi það sem koma skal í vetur hjá flokknum.

Stefán Árnason