09.11.2008
Öll þrjú lið 4. flokks karla í handbolta léku um helgina í KA-Heimilinu en þetta voru fyrstu leikir KA í vetur á
Íslandsmótinu. Segja má að veturinn fari mjög vel af stað hjá strákunum en öll liðin unnu sína leiki eftir mikla spennu og hörku
leiki.
34 strákar spiluðu fyrir KA liðin þrjú um helgina og vantaði samt tvo við þann hóp sem gátu ekki verið með.
A-lið
A-liðið lék við Val og var það mikill hörkuleikur. Strákarnir spiluðu hraðan bolta og voru að gera nokkuð af mistökum í
leiðinni en hraðinn skilaði þeim einnig góðum mörkum. Jafnræði var lengi vel í leiknum. Í hálfleik var jafnt á komið
með liðunum, 13-13.
Í seinni hálfleik voru KA-menn hins vegar þónokkuð sterkari og fóru alltaf meira og meira fram úr Val. Eftir mjög hraðann leik urðu
lokatölur 29-26 fyrir KA.
Varnarleikur strákanna var slakur að þessu sinni og liðið að gera mikið af mistökum einn á einn. Í sókninni voru þeir hins vegar
mjög góðir og að spila vel saman. Margir leikmenn skiluðu sóknarlega og allir voru ákveðnir og til í að skapa ógn.
Hjalti Jón Guðmundsson átti stórleik og gerði 6 mörk og ánægjulegt að liðið sé að finna hann, en Hjalti var líklega
skástur í vörninni hjá KA þar sem flestir áttu mikið inni. Andri Oddur gerði einnig 6 mörk og var oft hættulegur í hröðu
upphlaupunum en hann þarf þó að róa sig niður á köflum og passa sig að fara ekki framúr sjálfum sér. Sigþór
Árni stjórnaði sókninni og hröðum upphlaupum vel og var ógnandi sjálfur. Þá verður að minnast á mikilvæga innkomu
Viktors Samúelssonar sem lokaði því sem loka þurfti í vörninni og gerði góð mörk þegar mest á reyndi.
B-1
B-1 lék við Selfoss. Leikurinn var nokkuð kaflaskiptur. KA náði undirtökunum í leiknum og var yfir framan af. Seinustu mínúturnar í fyrri
hálfleik voru hins vegar slakar og kemst Selfoss yfir og leiðir 13-11 í hálfleik. Selfoss komst svo þremur mörkum yfir í seinni hálfleik en
þá sýndi KA liðið mikinn karakter og reif sig upp og vann leikinn 25-23.
Okkar menn léku slaka vörn framan af leik og voru alls ekki að vinna nægilega vel saman. Í seinni hálfleik hins vegar náði liðið hins vegar
að þétta vörnina og þegar hún lokaðist þá áttu Selfyssingar ekki möguleika í KA liðið.
Í sókninni var margt flott að gerast á köflum og spilamennskan lengi góð. Það sem vantar kannski er að fleiri komi inn og séu
tilbúnir að taka ábyrgð. Þó verður að segjast að bæði varnar- og sóknarlega á KA-liðið nokkuð inni miðað
við þennan leik en það mikilvægasta er að liðið bætti sig eftir því sem á leið.
Friðrik Svavarsson bar af í KA-liðinu og gerði alls 8 mörk í leiknum. Daníel Matthíasson lék mjög vel varnarlega og barðist allan leikinn,
einnig átti hann fínan leik í sókn. Skytturnar Bjarki og Kristján gerðu svo einnig góð mörk og spiluðu oft fínt en eiga
þó aðeins inni. Þá lék Ásgeir Frímannsson vel í horninu.
B-2
B-2 mætti Selfoss 2. Þar var lengst af jafnræði með liðunum. KA var þó oftast skrefinu á undan. Í fyrri hálfleik léku
strákarnir alls ekki nægilega góða vörn og lak mikið inn hjá liðinu. Sóknin var hins vegar góð og hélt þeim skrefinu
á undan Selfoss. Í hálfleik var staðan 15-14.
Í seinni hálfleik hins vegar þétti KA vörnina og þá átti Selfoss ekki möguleika í okkar menn. KA komst í 22-18 þegar
þrjár mínútur voru eftir. Seinustu mínúturnar voru hins vegar ekki nógu góðar og minnkaði Selfoss muninn í 22-21 þegar
skammt var til leiksloka og var með boltann í seinustu sókn leiksins en Hjalti í marki KA varði vel.
Yngvi Ásgeirsson fór hamförum í dag og lék mjög vel. Hann var ákveðinn í sókninni og gerði heil 10 mörk í leiknum.
Hjalti í markinu varði vel lengst af í leiknum. Þá áttu margir leikmenn fínan leik, t.d. Sölvi og Garðar sem tættu sig í gegnum
vörn Selfoss oft á tíðum með góðum fintum sínum og sendingum.
Stefán Árnason