Pistill um 5. flokk kvenna

Stelpurnar í 5. flokki fóru í síðasta mót vetrarins núna um helgina sem leið. Sama keppnisfyrirkomulag var á þessu móti og öðrum mótum vetrarins þ.e. keppt var í deild, alls fjórir leikir. Að þessu sinni kepptu stelpurnar í efstu deild í fyrsta skiptið eftir að hafa byrjað í haust í neðstu deild. Eins og flestir vita hefur gengið afar vel í vetur, stelpurnar ekki tapað leik og liðið tekið stöðugum framförum.

Fyrsti leikur var að þessu sinni gegn Gróttu, klukkan 9:00 á laugardagsmorguninn í Kaplakrika en mótið var í umsjá Fimleikafélagsins frá Hafnarfirði. Gróttustelpurnar voru ákveðnari í byrjun leiks og náðu 5-1 forskoti fljótlega. Frá þeim tímapunkti jafnaðist leikurinn út og skiptust liðin á að skora án þess að stelpurnar okkar næðu að minnka muninn af ráði. Staðan var 7-3 í hálfleik. Í upphafi seinni hálfleiks var sama upp á teningnum, liðin skiptust á að skora og stelpurnar náðu ekki að vinna upp þann mun sem Grótta náði í upphafi leiks. Að lokum náði Grótta yfirhöndinni og lokatölur voru 11-4 fyrir Gróttu.

Næsti leikur hófst einungis 40 mínútum síðar og var gegn ÍR. Í þeim leik var allt annað KA-lið mætt til leiks og tóku stelpurnar strax frumkvæðið. ÍR var þó aldrei langt undan og var jafnt í hálfleik. Seinni hálfleikur var í járnum en stelpurnar okkar alltaf skrefi á undan. Heppnin var þó ekki með okkur að lokum og endaði leikurinn með jafntefli 10-10. Stelpurnar voru að spila fantagóða vörn í þessum leik og voru eins og áður segir virkilega óheppnar að taka ekki öll stigin.

Þriðji leikur stelpnanna okkar þessa helgina var gegn taplausu liði Selfoss sem þegar var búið að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn fyrir helgina. Okkar stelpur stóðu sig eins og hetjur í þessum leik. Stelpurnar voru yfir á tímabili í fyrri hálfleik á móti mjög sterku liði Selfoss en misstu flugið áður en flautað var til hálfleiks. Þær komu svo aftur sterkar til leiks í seinni hálfleiks og minnkuðu muninn í eitt mark en komust því miður ekki nær. Lokastaða 13-17 gegn Íslandsmeisturunum sem voru heppnar með ýmis atriði í leiknum.

Síðasti mótherji vetrarins var lið Aftureldingar. Til að gera langa sögu stutta sigraði Afturelding 15-4. Mikil þreyta var komin í liðið þegar þarna var komið við sögu og á sama tíma voru stelpurnar úr Mosfellsbæ afar sprækar.

Þrátt fyrir að úrslit helgarinnar hafi ekki verið í takt við önnur mót vetrarins var gríðarmargt jákvætt við spilamennskuna að þessu sinni. Stelpurnar voru að spila á köflum virkilega góða og hreyfanlega 6-0 vörn ásamt því að í sókninni voru stelpurnar oft að koma sér í góð færi eða hreinlega að skjóta virkilega vel fyrir utan. Ásamt þessu var afar gaman að sjá nýju stelpurnar, Sævöru og Hugrúnu, stíga sín fyrstu skref í keppni. Stóðu þær sig eins og allt liðið með prýði. Stelpurnar voru í fyrsta skiptið í vetur að spila við jafningja sína og þrátt fyrir einstök úrslit eru þær fyllilega á pari við bestu jafnaldra sína í handbolta. KA/Þór endaði í 5. sæti á íslandsmótinu með 9 stig. Það er virkilega flottur árangur í ljósi þess að stelpurnar hófu leik í neðstu deild og eru þjálfarar einstaklega stoltir núna í lok tímabils. Stelpurnar geta hlakka til næsta vetrar vitandi það að þær geta og eiga að setja markið hátt.

Undirritaður hefur haft virkilega gaman af því að vinna með stelpunum í vetur og hafa þær allar sem ein tekið stórstígum framförum sem handboltaleikmenn. Nú er keppni þennan veturinn lokið. Æfingar munu engu að síður halda samkvæmt æfingatöflu út apríl og eitthvað inn í maí a.m.k. fram að lokahófi.

Sindri Kristjánsson