Rakel Sara og Helga María í 2. sæti á EM-B

Handbolti
Rakel Sara og Helga María í 2. sæti á EM-B
Frábær árangur hjá stelpunum (mynd: HSÍ)

Rakel Sara Elvarsdóttir og Helga María Viðarsdóttir leikmenn KA/Þórs náðu þeim frábæra árangri með U17 ára landsliðinu að fá silfur í B-deild á Evrópumeistaramótinu í Ítalíu. Að auki var Rakel Sara valin besti hægri hornamaðurinn á mótinu og geta stelpurnar því verið ansi sáttar með uppskeruna á mótinu.


Rakel Sara og Ásdís Þóra voru báðar valdar í lið mótsins

Það munaði þó ekki miklu að stelpurnar færu heim með gullið því að í úrslitaleiknum gegn Tékklandi var staðan jöfn 28-28 að loknum venjulegum leiktíma. Það var því farið í vítakeppni og fóru Tékkar með sigur af hólmi eftir þessa hörkuviðureign.

Í riðlakeppninni unnu stelpurnar hinsvegar góðan sigur á þessu sterka liði Tékka 26-24 sem hjálpaði liðinu að vinna riðilinn og tryggja sér þar með sæti í undanúrslitunum. Í riðlinum vann íslenska liðið 24-19 sigur á Ísrael þar sem Rakel Sara var valin maður leiksins, 32-22 sigur á Tyrkjum og svo 27-19 sigur á Kósóvó.

Í undanúrslitunum unnu stelpurnar 25-23 sigur á Póllandi þar sem stelpurnar sýndu frábæran karakter og sneru leiknum við eftir að hafa verið 12-15 undir í hálfleik.

Við óskum stelpunum að sjálfsögðu til hamingju með þennan frábæra árangur!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is