Risaslagur á sunnudaginn: Akureyri - FH í bikarkeppninni

Það er nóg að gera í handboltanum þessa dagana. Sigurleikur gegn Stjörnunni í gær eftir rafmagnaðar lokasekúndur. Á sunnudaginn verður sannkallaður risaslagur í Eimskipsbikarnum þegar Akureyri tekur á móti FH í Íþróttahöllinni klukkan 16:00. Akureyringar fá nú kærkomið tækifæri til að hefna fyrir deildarleikinn á dögunum þegar FH-ingar flugu suður með 2 stig úr Höllinni.

Bæði liðin spiluðu í gær í N1-deildinni og var hlutskipti þeirra misjafnt. Eins og áður segir bar Akureyri sigurorð af Stjörnunni á meðan FH tapaði á heimavelli sínum gegn Gróttu með sex marka mun. Það má því reikna með hörkuleik, Akureyri þarf að hefna fyrir tapið og FH-ingar munu freista þess að komast á sigurbraut eftir tvo tapleiki í röð í N1-deildinni.

Fréttir herma að væntanlegar séu tvær rútur með Hafnfirska stuðningsmenn FH liðsins og nú þurfa Akureyrskir áhorfendur að sýna þeim hvernig bestu áhorfendur landsins styðja sína menn.

Athugið að ársmiðar og stuðningsmannakort gilda ekki sem aðgöngumiði á bikarleikinn en hins vegar verða veitingar í stuðningsmannaherberginu eins og vanalega.

Sjáumst í Höllinni á sunnudaginn!


Það má búast við að eitthvað gangi á þegar þessir mætast á ný!