Það var hugur í strákunum í 3. flokki fyrir úrslitaleikinn gegn Stjörnunni á sunnudaginn. Liðin höfðu mæst tvisvar um veturinn í deildinni og unnu sinn hvorn heimaleikinn. Það var reyndar eini tapleikur Stjörnunnar í deildinni. Það var því ljóst að baráttan yrði hörð og því stigu nokkrir leikmanna KA á stokk og strengdu þess heit að ef þeir ynnu leikinn myndu þeir láta snoða sig.
Eins og við vitum unnu strákarnir frækinn sigur í leiknum og var meðfylgjandi mynd tekin eftir að þeir fengu Íslandsbikarinn afhentan.
En eins og sönnum heiðursmönnum sæmir var staðið við gefin heit og það var fyrirliðinn Guðmundur Hólmar Helgason sem reið á vaðið með hárskurðinn. Það var enginn annar en þjálfarinn, Jóhann Gunnar Jóhannsson sem tók að sér starf hárskerans. Við höfum undir höndum nokkrar myndir frá athöfninni.