Stelpurnar í meistaraflokki og 3. flokki kvenna fóru suður um liðna helgi. 4 leikir voru á dagskrá, tveir í meistaraflokki og tveir í unglingaflokki. Þar sem margar í meistaraflokk eru einnig gjaldgengar í unglingaflokk var nokkuð ljóst að skipta þurfti leikjunum niður á mannskapinn.
Valur-KA/Þór
Fyrir leikinn voru bæði KA/Þór og Valur taplaus í 2. deildinni og vitað mál að Valur hefði
hörkumannskap innanborðs. Þar sem mikilvægur leikur í 3. flokk var seinna um daginn fengu margar að hvíla þann leik.
Leikurinn byrjaði ágætlega en um miðjan hálfleik fór að síga á ógæfuhliðina og Valur jók forskot sitt og leiddi með 7
mörkum í hálfleik, 24-17. Í byrjun síðari hálfleiks gekk allt á afturfótunum hjá okkar stúlkum og Valsarar röðuðu
inn mörkum úr hröðum upphlaupum og hraðri miðju. Stelpurnar bættu þó sinn leik og söxuðu vel á forskotið. Þegar
búið var að minnka muninn niður í 4 mörk misstu KA/ Þór stelpur mann út af í tvígang og við það hvarf vonin.
Hvorki vörn né markvarsla fundu sig í þessum leik og sóknarlega voru ýmsar ákvarðanir teknar sem betur hefðu verið geymdar heima.
Markahæstar í leiknum voru Lilja Sif Þórisdóttir og Steinþóra Heimisdóttir með 8 mörk og Kolbrún Gígja Einarsdóttir
með 6.
FH-KA/Þór
Stelpurnar mættu nokkuð ákveðnar til leiks og tóku forustuna fljótlega. Þrátt fyrir að vörnin
hafi verið slök í fyrri hálfleik gekk allt upp í sókninni og virtust KA/Þór stelpur getað skorað þegar þeim sýndist.
Í hálfleik var ákveðið að stoppa upp í götin í vörninni og halda áfram þessum sóknarleik. Það tókst og
með því komst Lovísa betur inn í leikinn og varði vel. Smám saman juku KA/Þór stelpur forskot sitt og lönduðu öruggum
tíu marka sigri, 24-34.
Markaskorun skiptist vel niður á leikmenn. Markahæstar voru Arna Erlingsdóttir með 8 mörk og Arndís Heimisdóttir, Emma Sardarsdóttir og Unnur
Ómarsdóttir sex mörk.
HK-KA/Þór
Klukkan átta á sunnudagsmorgni var meistaraflokkur KA/Þórs mættur á Ásvelli til að spila við HK
stelpur og hófst leikurinn klukkan 09:00.
Stelpurnar tóku strax völdin á vellinum og stóðu sig með sóma. Þórdís stakk sér í hraðaupphlaup hvað eftir annað
og endaði hún í 14 mörkum, öll eftir hraðaupphlaup.
Markaskorunin var nokkuð dreifð en Þórdís stóð upp úr í markaskorun með 14 mörk, öll úr hraðaupphlaupum en HK stelpur
réðu ekkert við hraðann á Þórdísi í leiknum. Næst á eftir henni kom Lilja Sif með 10.
Fram-KA/Þór
Stelpurnar í 3. flokk mættu í Safamýrina, staðráðnar í að gera betur en í bikarleiknum
fyrir tveimur vikum. Leikurinn byrjaði vel fyrir KA/ Þór stelpur og voru þær skrefi á undan Fram í byrjun leiks. Þegar tíu
mínútur voru eftir af fyrri hálfleik náði Fram að jafna og komast yfir. KA/Þór náði þó að jafna leikinn með
glæsilegu marki Örnu Erlingsdóttur áður en fyrri hálfleikur kláraðist. Í byrjun seinni hálfleiks náðu Fram stúlkur
forustu sem þær héldu allt til loka leiks.
Markahæst í leiknum var Arna Erlingsdóttir með 10 mörk.
Stelpurnar stóðu sig vel framan af í leiknum en á kafla í síðari hálfleik fór allt í baklás í sókninni og ekkert
gekk upp. Markmaður Fram var að verja virkilega vel frá stelpunum oft á tíðum og dró það úr sumum þeirra kjarkinn.
Sóknarlega vantaði nauðsynlega að fleiri tækju af skarið þegar á leið á leikinn og má segja að það hafi orðið
þeim að falli þegar upp var staðið. Það þýðir þó lítið að velta sér upp úr því að svo
stöddu og vitað mál að þessi leikur fer í reynslubankann hjá öllu liðinu.
Næsti leikur er gegn FH í undanúrslitum bikars á laugardaginn.
Stelpurnar eiga þar möguleika á því að komast
alla leið í bikarúrslitaleikinn, sem er án alls efa stærsti handboltaviðburður landsins ár hvert.
Því er um að gera að drífa sig á leikinn á laugardaginn og hvetja stelpurnar alla leið í úrslitaleikinn.
Það er vitað mál að FH-ingar ætla sér að fylla nokkrar rútur og koma hingað norður til að hvetja sínar stelpur áfram og
það væri skömm að því ef við Akureyringar náum ekki að verma fleiri sæti í KA heimilinu heldur en FH-ingarnir!
Leikurinn hefst klukkan 16:00 á laugardaginn og er eins og áður sagði í KA heimilinu.