Síðasti heimaleikur fyrir jól á mánudag

Handbolti

Á mánudaginn tekur KA á móti Val í síðasta heimaleik KA fyrir jólafrí í Olís deild karla. Það má búast við svakalegum leik enda mikil saga milli þessara tveggja liða. Strákarnir unnu magnaðan sigur á þreföldum meisturum ÍBV í Vestmannaeyjum í síðustu umferð og ætla sér svo sannarlega sigur gegn sterku liði gestanna.

KA liðið hefur farið frábærlega af stað í deildinni og er með 8 stig á sama tíma og Valsmenn eru með 12 stig í 4. sæti deildarinnar. Valsmenn hafa líklega best skipaða lið landsins en það hræðir okkar lið lítið enda hafa strákarnir staðið sig frábærlega í vetur og gefið bestu liðum landsins svo sannarlega alvöru leiki.

Það skiptir öllu máli að við fjölmennum í stúkuna á mánudaginn, stemningin í KA-Heimilinu hefur verið gjörsamlega mögnuð og við þurfum að halda því áfram á þessum mikilvæga leik. Það styttist í að deildarkeppnin verði hálfnuð og hvert einasta stig skiptir gríðarlega miklu máli. Við erum staðráðin í því að festa KA í sessi sem lið í deild þeirra bestu!

Hér rifjum við upp þegar Heimir Örn Árnason tryggði KA sigur á Val í fjórða leik liðanna í úrslitakeppninni 2002 en Heimir er bæði þjálfari og leikmaður í liði KA í dag. KA varð eins og frægt er Íslandsmeistari í kjölfarið.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is