Sigur á Akureyri, styttist í Olís deildina

Handbolti
Sigur á Akureyri, styttist í Olís deildina
Góður sigur í gærkvöldi (myndir: Þórir Tryggva)

Það er farið að styttast í að baráttan í Olís deild karla í handboltanum hefjist að nýju eftir HM hlé en KA leikur fyrsta leik sinn eftir hlé sunnudaginn 3. febrúar þegar liðið tekur á móti Fram. Það er gríðarlega mikið undir í leiknum en Fram er í fallsæti aðeins þremur stigum á eftir okkar liði þegar 9 umferðir eru eftir í deildinni.

Eins og gengur og gerist í svona langri pásu þá hefur KA liðið verið að leika æfingaleiki og um síðustu helgi hélt liðið suður og lék gegn ÍR og Fjölni. Töluvert ryð var í liðinu og vantaði töluvert uppá spilamennskuna í leikjunum tveimur. Strákarnir unnu 30-32 sigur á ÍR-ingum en töpuðu gegn Grill-66 deildarliði Fjölnis 27-25.

Það var því kærkomið að fá æfingaleik gegn nágrönnunum í Akureyri í gærkvöldi og svöruðu strákarnir vel fyrir síðustu leiki. Leikurinn í gær var hörkuspennandi og mátti vart sjá að um æfingaleik væri að ræða en þetta var fyrsti leikur Akureyrar undir stjórn Geirs Sveinssonar. KA liðið var aðeins vængbrotið en báðir vinstri hornamenn liðsins voru fjarri góðu gamni og fengu ýmsir að spreita sig í horninu fyrir vikið.

Liðin skiptust á að leiða í upphafi leiks og var jafnt á nánast öllum tölum upp í 8-8. Akureyrarliðið náði þá fínum kafla og gerði næstu þrjú mörk. KA liðið náði þó að laga stöðuna fyrir hlé og hálfleikstölur voru 14-13 fyrir Akureyri.

Sama spenna einkenndi síðari hálfleikinn og mátti vart sjá hvort liðið myndi fara með sigur af hólmi. Bæði lið dreifðu álaginu þó nokkuð og ljóst að leikurinn mun svara ýmsum spurningum sem þjálfarar liðanna hafa fyrir lokasprettinn í deildinni.

Þegar leið á síðari hálfleikinn sýndu strákarnir svo styrk sinn og keyrðu yfir Akureyrarliðið. KA náði mest fimm marka forskoti en á endanum vannst 23-27 sigur. Alltaf sætt að vinna bæjarslagi þó um æfingaleik væri að ræða en mest jákvætt þó að sjálfsögðu að spilamennskan var allt önnur frá helginni.

Áki Egilsnes var markahæstur með 10 mörk, Tarik Kasumovic gerði 6 mörk, Daníel Matthíasson gerði 4 og þeir Jovan Kukobat, Jón Heiðar Sigurðsson, Sigþór Árni Heimisson, Sigþór Gunnar Jónsson, Einar Birgir Stefánsson, Allan Norðberg og Daði Jónsson gerðu allir eitt mark hver.

Í markinu dreifðu Jovan Kukobat og Svavar Ingi Sigmundsson álaginu og vörðu þeir báðir frekar vel.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is