Sigur í fyrsta leik KA í 12 ár

Áki Egilsnes skýtur á markið. Mynd: Sævar Geir
Áki Egilsnes skýtur á markið. Mynd: Sævar Geir

Það vantaði ekki fólksfjöldann eða stemminguna þegar KA tók á móti ÍBV U í Grill66 deild karla í kvöld í KA-heimilinu. Leiknum lauk með 1 marks sigri heimastráka, 30-29.

ÍBV var yfir nánast allan leikinn og léku Eyjapeyjar gríðarlega góða vörn og nýttu sín færi í sókninni vel. KA komst betur inn í leikinn þegar á leið, enda gríðarlega vel studdir af 747 áhorfendum sem að fylltu KA-heimilið í kvöld. Og fólkið fékk eitthvað fyrir peninginn. Þegar að 1 mínúta og 47 sekúndur voru eftir af leiknum leiddi ÍBV með þremur mörkum en það dugði ekki til. Gamla góða KA geðveikin og baráttan var til staðar. KA jafnaði þegar 40 sekúndur voru eftir og ÍBV hélt í sókn. Þegar 13 sekúndur voru eftir fengu gestirnir vítakast. Bjarki Símonarson, sem varið hafði mark KA vel, skipti sjálfum sér útaf og inná kom Svavar Sigmundsson, 17 ára piltur. Hann gerði sér lítið fyrir og varði vítið og kastaði boltanum beint í leik.

Stefán Árnason, þjálfari KA var klókur að taka ekki leikhlé, enda ÍBV vörnin óskipulögð á leiðinni til baka. Boltinn barst fram á Áka Egilsnes, sem kastaði honum á Jón Heiðar sem gaf flotta sendingu niður í horn á hinn 17 ára Dag Gautason sem að skaut á fyrsta tempói og boltinn söng í netinu, lokatölur 30-29, og í fyrsta skipti sem að KA komst yfir í leiknum.

KA-heimilið gjörsamlega trylltist og fylltist gólfið af gulklæddum KA-stuðningsmönnum sem fögnuðu vel og lengi með liðinu.

KA sýndi oft og tíðum ágæta spilamennsku gegn sterku liði ÍBV U í dag, en margt má bæta enda tímabilið langt og margir leiki framundan. Þessi tvö stig eru dýrmæt í stigasöfnuninni fyrir komandi vetur og sýnir að KA gefst aldrei upp. 

Dagur Gautason var bestur í KA-liðinu í dag en þessi ungi piltur fór gjörsamlega á kostum og skoraði m.a. tvö síðustu mörk liðsins. Aðrir sem léku vel voru til dæmis Áki Egilsnes frá Færeyjum og Sigþór Árni Heimisson sem skoraði af vild í seinni hálfleik. 

Mörk KA: Dagur Gautason 7, Sigþór Árni Heimisson 7, Áki Egilsnes 6, Andri Snær Stefánsson 4, Sigþór Gunnar Jónsson 4, Elfar Halldórsson 1 og Jón Heiðar Sigurðsson 1 mark.

Mörk ÍBV U: Friðrik Hólm Jónsson 7, Dagur Arnarsson 5, Daníel Griffin 4, Logi Snædal Jónsson 4, Ágúst Emil Grétarsson 3, Gabríel Martines 2, Páll Eydal Ívarsson 2, Bergvin Haraldsson 1 og Ívar Logi Styrmisson 1 mark.

Hér má sjá gang leiksins:

Tímalína fyrri hálfleiks

Tímalína seinni hálfleiks

Myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum má nálgast hér.

Í þessari umfjöllun verður ekki hjá því komist að minnast á þátt áhorfenda og umgjörðina en fullt var út að dyrum í KA-heimilinu í kvöld klukkutíma fyrir leik. 747 áhorfendur komu á leikinn og nutu þess að sjá þennan stórkostlega sigur, eftir að hafa hlustað á Hamrabandið spila fyrir leik, hoppa í hoppukastala og borða pylsur. Stemmingin var stórkostleg og þakið nánast rifnaði af húsinu.

Hér að neðan er myndband Ágústar Stefánssonar sem sýnir glefsur úr leiknum frá öðru sjónarhorni en venjulega og gefur jafnframt skemmtilega mynd af stemmingunni sem var á leiknum.

Leikurinn var í beinni útsendingu á KA-TV og er hægt að sjá leikinn hér að neðan, m.a. lokamínúturnar æsilegu og fögnuð KA-manna. Við biðjumst velvirðingar á hljóðtruflunum sem valda því að hljóð og mynd fer ekki alveg saman.