Stefán og Jónatan þjálfa KA næstu 2 árin

Handbolti
Stefán og Jónatan þjálfa KA næstu 2 árin
Haddur, Jonni, Stebbi og Heimir við undirritunina

Handknattleiksdeild KA skrifaði í dag undir tveggja ára samning við þá Stefán Árnason og Jónatan Magnússon um að þeir munu þjálfa karlalið KA í handbolta. Stefán og Jónatan verða saman aðalþjálfarar rétt eins og Stefán og Heimir Örn Árnason hafa verið í vetur en Heimir stígur nú til hliðar og þökkum við honum fyrir hans framlag í þjálfuninni.

Jónatan hefur undanfarin þrjú ár stýrt kvennaliði KA/Þórs með frábærum árangri en lætur nú af því starfi. Á tíma sínum með liðið fór hann upp í deild þeirra bestu og tryggði liðinu 5. sæti í þeirri deild í vetur. Stefán hefur hinsvegar þjálfað karlalið KA undanfarin tvö ár með frábærum árangri og heldur því áfram þeirri vegferð nú með Jónatan.

Mikil ánægja er með þessa samninga og ætlast handknattleiksdeild KA til mikils af þeim tveimur. KA er staðráðið í að stíga áfram fram á við en á morgun lýkur öðru tímabili KA eftir að félagið sleit sig úr samstarfinu um Akureyri Handboltafélag og hefur á þeim tíma unnið sér sæti í deild þeirra bestu og leikur þar áfram eftir góða uppskeru í vetur.

Á sama tíma skrifuðu bæði Stefán og Jónatan undir áframhaldandi samning við yngriflokkaráð KA en Jónatan hefur starfað sem yfirþjálfari yngriflokka og Stefán hefur stýrt afreksþjálfun handknattleiksdeildar auk þess sem þeir hafa þjálfað yngriflokka samhliða öðrum störfum sínum.

Saman hafa þeir félagar stigið stór skref á síðustu árum í að bæta allt starfið í kringum handboltann og gera það faglegra. Til að mynda hefur iðkendum boðist sérhæfðar morgunæfingar þeim að kostnaðarlausu.

Haddur Júlíus Stefánsson formaður handknattleiksdeildar skrifaði undir samninginn fyrir hönd KA og Heimir Örn Árnason formaður unglingaráðs skrifaði undir fyrir hönd yngriflokka KA. Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan í handboltanum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is