Í Morgunblaðinu í dag er kynning á liði KA/Þór sem leikur í vetur í N1 deild kvenna. M.a. er rætt við þjálfara
liðsins Guðlaug Arnarsson. Þess má geta að stelpurnar sitja hjá í fyrstu umferð deildarinnar þar sem Fylkir dró lið sitt út
úr keppninni á síðustu stundu.
Fyrsti leikur liðsins verður 8. október en það er útileikur gegn HK en þann 15. október verður fyrsti heimaleikurinn þegar FH stúlkur
koma í heimsókn.
Hér á eftir er kynningin úr Morgunblaðinu.
Húsvíkingurinn Guðlaugur Arnarsson mun hafa í mörg horn að líta í vetur. Guðlaugur stýrir liði KA/Þór í N1-deild kvenna og sér auk þess um að binda saman vörn Akureyrar í N1-deild karla. Lið KA/Þór var ekki með í Íslandsmótinu á síðustu leiktíð og er því svolítið óskrifað blað að margra mati.
„Okkar væntingar eru þær að fara inn í deildina og byggja ofan á hvern leik fyrir sig. Við viljum gera liðið að stöðugu liði í efstu deild,“ sagði Guðlaugur þegar Morgunblaðið ræddi við hann um stöðu mála.
Þrátt fyrir að liðið hafi ekki verið með í fyrra þá segir Guðlaugur ágætlega hafa verið haldið utan um leikmannahópinn í fyrra en liðið tók þá þátt í utandeildinni.
„Ágætlega var haldið utan um liðið í fyrra þó að það hafi verið í utandeild. Þær eldri náðu að hanga svolítið með og þær yngri fengu ákveðna eldskírn. Það skilar okkur þó nokkru núna. Ungu stelpurnar fengu að spila mikið og voru í raun í aðalhlutverkum. Það nýtist þeim vel,“ útskýrði Guðlaugur og hann telur Val og Fram vera í sérflokki.
„Þetta er náttúrlega tveggja liða barátta á toppnum. Annað held ég að verði nokkuð jafnt. Stjarnan, HK og ÍBV eru kannski sterkust þeirra sem eru fyrir neðan. Baráttan um efsta sætið er eingöngu á milli Vals og Fram en við ætlum okkur að gera ákveðna hluti í þeirra baráttu sem verður fyrir neðan þau,“ sagði Guðlaugur Arnarsson en bróðir hans er kunnur knattspyrnuþjálfari, Ásmundur Arnarsson hjá Fjölni.
Lið KA/Þór er samstarf Akureyrarfélaganna tveggja eins og nafnið gefur til kynna og leikur liðið heimaleiki sína í KA-heimilinu sem er þekkt vígi í íslenskri handboltasögu. Akureyrarliðið hefur verið inn og út úr Íslandsmótinu á síðustu árum. Liðið var með 2009-2010 en ekki 2008-2009. Árin tvö þar á undan var leikið undir merkjum Akureyrar en tímabilið 2000-2001 var í fyrsta skipti leikið undir merkjum KA/Þór.
Leikmenn KA/Þór á æfingu í KA heimilinu á þriðjudagskvöldið ásamt Guðlaugi þjálfara
Mynd: Skapti Hallgrímsson
Fríða Petersen markvörður
Jóhann Ósk Snædal vinstra horn
Katrín Vilhjálmsdóttir vinstra horn
Aldís Mánadóttir vinstri skytta
Arndís Heimisdóttir vinstri skytta
Birta Fönn Sveinsdóttir vinstri skytta
Erla Hleiður Tryggvadóttir vinstri skytta
Hulda Tryggvadóttir vinstri skytta
Laufey Lára Höskuldsdóttir miðjumaður
Martha Hermannsdóttir miðjumaður
Ásdís Sigurðardóttir hægri skytta
Kolbrún Gígja Einarsdóttir hægri skytta
Ingunn Júlía Tómasdóttir hægra horn
Guðrún Tryggvadóttir línumaður
Inga Dís Sigurðardóttir línumaður
Kolbrá Ingólfsdóttir línumaður
Sunneva Níelsdóttir línumaður
Kristján Jónsson kris@mbl.is