Stelpurnar í 3. flokki fóru suður um liðna helgi

Stelpurnar áttu þrjá leiki, einn á laugardag og tvo á sunnudag.
Á laugardeginum var spilað við Fylki. Leikurinn var í járnum framan af og skiptust liðin á að skora. Varnarlega voru stelpurnar langt frá sínu besta og skoraði Fylkir allt of mörg auðveld mörk. Sóknin aftur á móti gekk ágætlega framan af, þrátt fyrir að Fylkir væri að spila mjög grimma framliggjandi vörn.

Slæmur leikkafli í seinni hálfleik gerði stelpunum erfitt fyrir og komust Fylkisstúlkur mest í 4 marka mun og náðu KA/Þór stelpur ekki að minnka muninn að neinu ráði þrátt fyrir að fá fjölda mörg tækifæri til þess.  Lokatölur 31-28.

Heilt yfir var leikurinn þokkalegur hjá stelpunum. Illa gekk að ná floti á boltann ásamt því að frumkvæði vantaði hjá hinum ýmsu leikmönnum. Hins vegar þegar stelpurnar gerðu þetta af krafti fengu þær alltaf færi og nýttu þær færin sín virkilega vel. Varnarlega áttu þær mikið inni, illa gekk að klára brotin og samskipti inn á vellinum hefðu mátt vera betri.

Arna Valgerður var óstöðvandi í sókninni og skoraði 13 mörk en allar stelpurnar komust á blað í þessum leik.

Staðráðnar í að gera betur mættu stelpurnar til leiks í Mýrinni í Garðabæ daginn eftir.
Byrjað var í 3-2-1 vörn til þess að eiga við helstu skyttu Stjörnu stúlkna, Akureyringinn fyrrverandi, Þorgerði Atladóttur. Emma Sardardóttir fékk þetta erfiða hlutverk og leysti það virkilega vel.

Framan af fyrri hálfleik var leikurinn nokkuð jafn. Stjörnustúlkur komust í 11-7 en KA/Þór náði að minnka muninn í 12-10. Þá kom aftur fát á sóknarleikinn og fyrir vikið skoruðu Stjörnustúlkur fjögur hraðaupphlaupsmörk í röð og staðan því 16-10 í hálfleik.

Seinni hálfleikur byrjaði eins og fyrri hálfleikur hafði endað. Sóknin döpur og þegar vörnin hrundi í kjölfarið réðu Stjörnustúlkur öllu því sem þær vildu ráða. Mest fór munurinn í 12 mörk.

Seinasta kortérið fór því aðallega í það að klóra aðeins í bakkann. Á því tímabili fóru stelpurnar að sækja almennilega á markið, Arna var tekin úr umferð og 5 á 5 áttu stelpurnar í engum vandræðum með að stimpla sig í gegn. Vörnin var ennþá höfuðverkur en síðustu tíu mínúturnar stóðu þær vörnina ágætlega og náðu að minnka muninn niður í átta mörk. Lokatölur 29-21

Varnarlega voru stelpurnar að vinna góða vinnu framan af. Stjörnustúlkur áttu í miklum erfiðleikum með að finna leið að markinu og var það vel. Hins vegar varð sóknin okkar stúlkum að falli í þessum leik. Sóknin gekk virkilega brösuglega og of margar sendingar enduðu í höndum Stjörnustúlkna sem endaði í hraðaupphlaupsmörkum. Ýmsir leikmenn Stjörnunnar fengu allt of mikla virðingu og voru aðgerðirnar í sókninni eftir því.

Stelpurnar fengu þó ekki mikinn tíma til þess að svekkja sig þar sem þeirra beið annar leikur strax á eftir við Gróttu2 í bikarnum.
Stelpurnar mættu mjög ákveðnar til leiks og létu þreytuna úr hinum leiknum ekki á sig fá. Þær spiluðu vörnina fast og voru snöggar að koma í hjálpina, sem var eitthvað sem hreinlega vantaði á löngum köflum í hinum tveimur leikjunum. Sóknarlega voru þær ákveðnar og fengu færi nánast í hverri sókn. Staðan í hálfleik var 17-3 KA/Þór í vil og sigurinn í raun aldrei í hættu. Ýmsar tilraunir voru gerðar í seinni hálfleik, sumar tókust, aðrar verða ekki ræddar. Lokatölur 27-11.

Helgin í heild var í sjálfu sér þolanleg. Á móti Fylki og Stjörnunni eru stelpurnar að spila undir getu og áttu mikið inni, sóknarlega og varnarlega auk þess sem í liðið vantaði nokkrar sterkar stelpur. Hinar sem komu í staðin stigu upp og stóðu sig með ágætum. Þrátt fyrir að Grótta2 sé að spila í 2. deild er vert að hrósa stelpunum fyrir þann leik. Þær komu ákveðnar til leiks þrátt fyrir vonbrigði helgarinnar. Oft getur verið virkilega erfitt að rífa sig upp við þessar aðstæður en það gerðu þær svo sannarlega og uppskáru vel. Grótta2 er ágætlega spilandi lið og hefðu getað valdið vandræðum ef stelpurnar hefðu ekki verið rétt stilltar inn á leikinn.

Stelpurnar eiga eftir að keppa tvo leiki fyrir jól, einn við FH og einn við Fram, báðir á heimavelli.

Stefán Guðnason