Stelpurnar í meistaraflokki fóru suður um helgina - ferðasagan öll

Stelpurnar í meistaraflokki kvenna fóru suður um helgina til að spila tvo leiki.
Lagt var af stað snemma á laugardagsmorgni, þó öllu seinna heldur en áætlað var þar sem einn leikmaður var stöðvaður af lögreglunni á leið sinni í rútuna.
Leikurinn gegn Fylki spilaðist nokkuð vel. Jafnt var í hálfleik og getumunur liðanna lítill og í raun hefðu KA/Þór stelpur átt að vera yfir í hálfleik. Seinni hálfleikur byrjaði ágætlega en það var eins og það vantaði ákveðna trú í stelpurnar til að setja í fluggírinn og klára þungt og pirrað Fylkisliðið. Stelpurnar fengu fjöldamörg tækifæri til þess að klára leikinn en heppnin virtist ekki vera með þeim þennan daginn og svo fór að Fylkisstelpur lönduðu tveggja marka sigri.

Stelpurnar sýndu í þessum leik að þær eru ekki lélegra handboltalið en Fylkir og eiga stelpurnar núna að stefna að því að þegar þessi lið mætast í þriðju umferð þá séu tvö stig það eina sem þær sætta sig við.

Eftir leikinn var farið í kringluna til þess að klára jólagjafainnkaupin. Sumir voru eins og litlir krakkar, lögðust í gólfið og heimtuðu að fara heim. Hlynur, Erlingur og hinar stelpurnar versluðu þó af sér rassgatið og gerðu sitt besta til að auka bensínkostnaðinn á leiðinni heim.

Um morguninn daginn eftir var síðan farið í Smáralind af frumkvæði Hlyns og Erlings þannig að það væri öruggt að lítið sem ekkert væri eftir af plássi í rútunni á leiðinni heim!

Krakkinn sem lagðist í gólfið í Kringlunni fór þó ekki með í Smáralind heldur fór strax um morguninn upp á Ásvelli til að sinna þarfari hlutum.

Leikurinn gegn Haukum var í raun meira svekkjandi heldur en Fylkisleikurinn. Leikurinn var jafn framan af og sýndu stelpurnar oft á tíðum virkilega fína spilamennsku. Þær eru einu til tveimur mörkum á eftir Haukum alveg þar til að korter er eftir af leiknum en þá missa þær hausinn og Haukaliðið gekk á lagið og var sigurinn heldur stór miðað við gang leiksins. Þar getur verið að þreyta hafi spilað inn í en stelpurnar spiluðu auðvitað erfiðan leik daginn áður.

Það sem stelpurnar geta tekið út úr þessum tveimur leikjum er að þegar þær selja sig dýrt, spila skynsamlega í sókninni og berjast eins og ljón í vörninni er allt hægt. Með smá heppni og örlítið meiri trú á verkefnið hefðu þær hæglega getað stolið stigum gegn Fylki á laugardeginum og Haukaleikurinn fór út um gluggann síðasta korterið. Það býr mikið í þessu liði og eins og oft hefur verið sagt þá verður lítið að marka þær fyrr en eftir áramót.

Nú þurfa stelpurnar að nýta pásuna vel í jólafríinu og koma vel undirbúnar inn í mótið á nýju ári og þá er aldrei að vita nema að þær komi einhverjum, þá helst sjálfum sér, þægilega á óvart.

Rútuferðin heim var eins og gefur að skilja frekar þröng og illa lyktandi. Tveir stærstu menn rútunnar sátu spasslaðir hlið við hlið á leiðinni heim aftast í rútunni enda varð Erlingur að sjá The Bodyguard sem sýnd var við dræmar undirtektir eina karlmannsins á svæðinu.

Fannst undirrituðum frekar óþægilegt þegar Erlingur þerraði tárin sem spruttu fram í lok myndarinnar enda plássið lítið þannig að slatti af vatnaverkinu lenti á honum.

Þó eru stelpurnar ekki alveg komnar í frí þar sem 3. flokkur kvenna spilar gegn Fylki á miðvikudaginn í 16 liða úrslitum bikars. Leikurinn fer fram í KA heimilinu og hefst klukkan 17:30. Það er því  um að gera fyrir sem flesta að mæta á þann leik og styðja stelpurnar í leið sinni á dúkinn í vor!

Stefán Guðnason