Stjarnan reyndist KA/Þór ofviða í gær

Katrín Vilhjálmsdóttir komin í færi
Katrín Vilhjálmsdóttir komin í færi

Íslands- og bikarmeistarar Stjörnunnar sýndu það í gær að það er ekki að ástæðulausu að þær eru topplið íslenska kvennahandboltans. Þar er valinn maður í hverju rúmi og ekki spillir fyrir að í markinu stendur besti markvörðurinn sem leikur hér á landi. Leik KA/Þór og Stjörnunnar lauk með þrettán marka sigri gestanna 19-32 eftir að hafa leitt 10-17 í hálfleik. Hér á eftir fer umfjöllun Þrastar Ernis Viðarssonar úr Vikudegi.is ásamt myndum frá Þóri Tryggvasyni.

KA/Þór tapaði með þrettán marka mun gegn Stjörnunni, 19:32, þegar liðin mættust í N1- deild kvenna í handbolta í KA-heimilinu í dag. Florentina Stanciu í marki Stjörnunnar var heimastúlkum erfið en hún átti stórleik í dag og varði 30 skot, þar af 3 víti og lagði þar með grunninn að stórsigri gestanna. Heimastúlkur byrjuðu leikinn ágætlega og héldu í við Stjörnuna fram að stöðunni 5:5.

Þá komu fimm mörk í röð hjá gestunum sem breyttu stöðunni í 5:10 sér í vil og áður en flautað var til hálfleiks hafði Stjarnan aukið muninn í sjö mörk og hafði yfir í hálfleik, 17:10.

Stjörnustúlkur héldu áfram á sömu braut í seinni hálfleik og náðu mest 16 marka forystu í stöðunni 14:30. Það fór svo að lokum að Stjarnan tryggði sér 13 marka sigur, 32:19. KA/Þór er því enn án stiga í deildinni eftir fimm leiki en Stjarnan hefur 10 stig eftir sex leiki.

 

Hjá KA/Þór var Inga Dís Sigurðardóttir markahæst með 7 mörk, Martha Hermannsdóttir skoraði 4 mörk, Unnur Ómarsdóttir 3 mörk, Emma Havin Sardardóttir 2 mörk, Katrín Vilhjálmsdóttir 2 mörk og Arna Valgerður Erlingsdóttir 1 mark.

Þá varði Selma Sigurðardóttir 8 skot í marki KA/Þórs, þar af eitt vítakast og Lovísa Eyvindsdóttir varði 6 skot.

Í liði Stjörnunnar voru markahæstar þær Alina Tamasan með 9 mörk og Harpa Sif Eyjólfsdóttir með 8 mörk, Elísabet Gunnarsdóttir 4, Esther Ragnarsdóttir 3, Jóna Halldórsdóttir 2, Þórhildur Gunnarsdóttir 2, Þorgerður Atladóttir 2, Aðalheiður Hreinsdóttir 1 og Indíana Jóhannsdóttir 1. Sem fyrr segir þá átti Florentina Stanciu stórleik í marki gestanna með 30 skot varin og Sólveig Björk Ásmundsdóttir varði 1 skot.

Næsti leikur KA/Þórs verður heimaleikur gegn Víkingi nk. miðvikudag, þann 11. nóvember, þegar liðin eigast við í Eimskipsbikarkeppni kvenna.

Skoða allar myndir Þóris frá leiknum

Sjá um leikinn á Vikudegi.is