Stórkostlegur sigur KA á Ásvöllum

Handbolti
Stórkostlegur sigur KA á Ásvöllum
KA leiðir 1-0 (mynd: Egill Bjarni)

KA og Haukar mættust í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar á Ásvöllum í kvöld en það lið sem fyrr vinnur tvo leiki fer áfram í undanúrslitin. Haukar hafa heimaleikjarétt í einvíginu en þeir enduðu í 2. sæti deildarinnar en það varð strax ljóst að KA liðið var mætt til að sækja sigur í kvöld.

Strákarnir byrjuðu af krafti, gerðu fyrstu tvö mörk leiksins og leiddu fyrstu mínúturnar. En of margir tapaðir boltar okkar liðs komu Haukunum betur inn í leikinn og þeir náðu frumkvæðinu er leið á leikinn. Haukar leiddu 16-14 í hálfleik en alveg ljóst að með agaðri leik væri allt mögulegt.

Forskotið jókst upp í fjögur mörk í upphafi síðari hálfleiks og í kjölfarið tók Jonni tvívegis leikhlé til að bregðast við. Vörnin þéttist og þar fyrir aftan fór Bruno Bernat að klukka nokkra bolta auk þess sem að sóknarlega tókst það vel að spila með aukamann.

Strákarnir sneru stöðunni úr 22-18 yfir í 23-24 á skömmum tíma og úr varð svakaleg spenna. Allt benti hinsvegar til þess að strákarnir væru að kasta leiknum frá sér þegar þeir misstu boltann tvisvar í röð og heimamenn náðu tveggja marka forskoti er fimm mínútur lifðu leiks.

En KA liðið gefst aldrei upp og aftur sneru strákarnir stöðunni sér ívil úr 28-26 yfir í 28-29. Haukarnir jöfnuðu í 29-29 í þann mund sem lokamínútan gekk í garð. Enn og aftur varð útlitið svart er strákarnir misstu boltann og Haukarnir í kjörstöðu að tryggja sigurinn, en Bruno gerði sér lítið fyrir og greip skot Haukanna og bombaði honum fram sem endaði með vítakasti er leiktíminn rann út. Óðinn Þór Ríkharðsson tryggði ótrúlega sætan sigur af punktinum og KA þar með komið í 1-0 forystu í einvíginu.

Það er því ljóst að strákarnir geta klárað einvígið á mánudaginn er Haukarnir mæta norður í KA-Heimilið og alveg ljóst kæru KA-menn að nú þurfum við að troðfylla húsið!

Miðasala hefst í Stubb klukkan 15:00 á morgun, laugardag og hvetjum við ykkur eindregið til að græja miða sem allra fyrst. Við auglýsum miðasöluna betur á morgun en athugið að ársmiðar gilda ekki í úrslitakeppninni.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is