Stórsigur hjá 4. flokki kvenna gegn Fram

Stelpurnar í 4. flokk spiluðu tvo leiki um helgina við Fram. Voru þessir leikir síðustu leikir liðsins í deildinni í vetur. Fyrri leikurinn fór rólega af stað og var jafnt á tölum fyrstu mínúturnar. Eftir það sigu KA stelpur fram úr og héldu öruggri forustu þó leikurinn héldi áfram að vera óttalega rólegur. Leikurinn endaði 25-15 KA í vil og einn rólegasti leikur tímabilsins staðreynd. Óttalegt andleysi var í stelpunum og þrátt fyrir tíu marka sigur léku þær langt undir getu, gerðu í raun einungis það sem þær þurftu.
Seinni leikurinn var öllu skemmtilegri og höfðu þær mun meiri ánægju af þeim leik. Spiluðu á köflum virkilega vel og 3-2-1 vörnin var nokkuð þétt. Þegar fimmtán mínútur lifðu af leiknum var skipt yfir í 6-0 vörn og gekk hún líka vel. Stelpurnar fengu færi nánast í hverri sókn og léku á alls oddi.
KA slakaði á í lokin og hefði sigurinn í raun getað orðið mun stærri en lokatölur voru 24-8.

Nú eru KA stelpurnar komnar í umspilsleik um laust sæti í 8 liða úrslitum eftir að hafa tryggt sér annað sætið í 2. deildinni og munu þær spila við Val sem endaði á botni 1. deildar.

Að svo stöddu er ekki víst hvenær sá leikur verður en það er verið að vinna í því að fá leikinn norður til að hlífa stelpunum við einn eitt ferðalagið. Það verður auglýst hér á síðunni um leið og það kemur í ljós.

Stefán Guðnason