Svabbi kóngur snýr aftur á völlinn!

Jón Heiðar Sigurðsson formaður handknattleiksdeildar og Svavar Ingi sáttir við undirritunina
Jón Heiðar Sigurðsson formaður handknattleiksdeildar og Svavar Ingi sáttir við undirritunina

Handboltalið KA heldur áfram að undirbúa sig fyrir baráttuna í Olísdeildinni í vetur og hefur nú borist ansi góður liðsstyrkur en Svavar Ingi Sigmundsson hefur ákveðið að taka fram skóna að nýju og leika með liðinu í vetur.

Svavar eða Svabbi kóngur eins og hann er iðulega kallaður hjá okkur KA mönnum verður 25 ára síðar á árinu er öflugur markvörður sem steig snemma sín fyrstu skref í meistaraflokki hjá KA. Hann var nýorðinn 17 ára þegar hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir KA en það var einmitt fyrsti leikur KA eftir að Akureyri Handboltafélag var lagt niður. Svabbi varði vítakast á lokasekúndum leiksins og í kjölfarið tryggði Dagur Gautason KA gríðarlega sætan eins marks sigur. Í kjölfarið fékk hann viðurnefnið Svabbi kóngur og hefur hann heldur betur staðið undir því.

Svabbi lék í fjögur ár með meistaraflokk KA uns hann hélt suður í nám árið 2021 þar sem hann lék með FH. Hjá FH var hann einnig yngriflokkaþjálfari sem og markmannsþjálfari yngriflokka og meistaraflokks kvenna. Hann sneri loks heim fyrir síðasta tímabil og tók þá við sem nýr yfirþjálfari handknattleiksdeildar KA auk þess að vera markmannsþjálfari félagsins og sinnir hann því starfi áfram næsta vetur.

Það er gríðarlega jákvætt að fá Svabba aftur inn í liðið en hann þekkir starfið okkar inn og verður virkilega gaman að fylgjast með framgöngu hans í vetur en KA liðið verður að mestu byggt upp af öflugum KA mönnum sem lifa fyrir KA og munu gefa sig alla í verkefnið.