Sverre aðstoðar KA út tímabilið

Handbolti
Sverre aðstoðar KA út tímabilið
Við bjóðum Sverre velkominn aftur í KA!

Handknattleiksdeild KA barst í dag mikill styrkur því Sverre Andreas Jakobsson mun aðstoða þá Stefán Árnason og Heimi Örn Árnason út tímabilið. Sverre býr yfir gríðarlegri reynslu og er ljóst að það mun gefa liðinu aukinn kraft á lokasprettinum í Olís deildinni þar sem strákarnir okkar eru staðráðnir í að halda liðinu í deild þeirra bestu.

Sverre er uppalinn í KA og varð með liðinu Íslands-, Bikar- og Deildarmeistari auk þess að verða Meistari Meistaranna. Síðar lék hann með Aftureldingu og HK auk þess að verða Íslandsmeistari með Fram. Þá fór hann út í atvinnumennsku þar sem hann lék með þýsku liðunum VfL Gummersbach og TV Grosswallstadt. Leikmannaferlinum lauk með sameiginlegu liði Akureyrar auk þess að hefja þjálfaraferil sinn með hinu sameiginlega liði.

Með íslenska landsliðinu lék hann alls 182 landsleiki þar sem hann lék lykilhlutverk í hjarta varnarinnar. Með landsliðinu vann Sverre meðal annars silfur á Ólympíuleikunum árið 2008 og brons á Evrópumeistaramótinu árið 2010.

Við viljum bjóða Sverre hjartanlega velkominn aftur í KA og hlökkum mjög að sjá til hans á hliðarlínunni.


Hér má sjá nokkra takta Sverre fyrir KA á árum áður


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is