Stelpurnar í 4 flokk kvenna fóru um liðna helgi suður til að spila í milliriðlum A liða. Tveir leikir voru á dagskránni og þurftu
þeir báðir að vinnast til að KA mundi spila í 1. deild í vetur.
Ferðalagið gekk vel og voru stelpurnar fljótar að koma sér fyrir í Gróttuheimilinu. Klukkan rúmlega eitt um nóttina fór
brunavarnarkerfið af stað með tilheyrandi hávaða. Athygli vekur að tvær stúlkur sváfu af sér hávaðann sem stóð yfir
í rúmt kortér!
Daginn eftir var vaknað og farið í göngutúr. Fyrri leikurinn var gegn heimastúlkum í Gróttu 3.
Það er í raun fátt hægt að segja um þann leik. Stelpurnar spiluðu gríðarlega illa í leiknum og voru ragar í sínum
aðgerðum. Boltinn gekk mjög illa og margar sendingar fóru forgörðum. Vörnin sem hingað til hafði haldið þeim á floti fann sig engan veginn
og fengu Gróttu stelpur allt of auðveld færi.
Tap í þeim leik voru sanngjörn úrslit miðað við spilamennsku liðsins.
Næsti leikur var síðan á móti ÍBV sem hafði á að skipa mun sterkara liði. Eftir Gróttu leikinn var haldinn fundur og stelpurnar
spurðar að því hvernig þær vildu skilja við þessa helgi. Nú voru komnir fjórir lélegir leikir í röð og kominn
tími á að þær minntu aðeins á sig.
Á móti ÍBV var annað lið mætt inn á völlinn. Loksins spiluðu þær af eðlilegri getu. Fóru á fullum krafti í
árásirnar og voru grimmar í vörninni. Sóknarlega gekk allt upp, hvað eftir annað fóru þær í gegnum vörn ÍBV og á
meðan hélt vörn KA stelpna gríðarlega vel. Staðan í hálfleik var 9-4 fyrir KA og hefði munurinn getað verið mun stærri en markmaður
ÍBV fór hamförum í fyrri hálfleik og varði oft á tíðum gríðarlega vel.
Seinni hálfleikur var því miður skref aftur á bak hjá KA stúlkum.
Markvörður ÍBV varði þrjú skot í röð frá þeim í upphafi seinni hálfleiks og við það brotnuðu KA stelpur.
Þær féllu aftur í sama farið og áður, urðu ragar og þorðu ekki að gera hlutina á fullum krafti. ÍBV fór úr 9-4
í 10-12 á fyrsta kortéri seinni hálfleiks. Þá stigu KA stelpur loksins upp og fóru að spila sinn bolta á ný og náðu
með herkjum að fá eitt stig út úr leiknum. Lokatölur 14-14.
Helgin er að vissu leiti mikil vonbrigði. Það vantar ekki hæfileikana í þennan hóp. Hver ein og einasta í þessu liði getur gert mjög
góða hluti þegar þær eru á fullu. Aftur á móti þegar stelpurnar hafa enga trú á sjálfum sér inn á vellinum
er erfitt að ná árangri. Þær sýndu það á móti ÍBV að þegar þær eru á fullu eru fá lið sem
geta stoppað þær. Í sama leik ættu þær að sjá árangurinn af því að spila á hálfum hraða með enga
trú í farteskinu.
2. deildin því staðreynd fyrir liðið. Hvað hæfileika og handboltalega getu á æfingum varðar er þessi hópur klárlega 1. deildar
lið. Hins vegar vantar í þær sigurviljann og hungrið eftir árangri og þegar farið er inn á völlinn með það hugarfar skiptir geta
á æfingum og í upphitun litlu sem engu. Upp á það tvennt er jákvætt fyrir þær að vera í 2. deild. Þar geta
þær fundið fjölina sína og vakið upp viljann í árangur inn á
vellinum.
Það býr hellingur í þessum hóp og stefnan sett á að nota þennan vetur í að koma sjálfstrausti og sjálfstrú inn
í kollinn á þeim.
Stefán Guðnason