Þegar KA tryggði sér úrslitaleik um titilinn 2002

Handbolti
Þegar KA tryggði sér úrslitaleik um titilinn 2002
18 ára hetja KA var hyllt! (mynd: Þórir Tryggva)

Úrslitaeinvígi KA og Vals um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta árið 2002 var ógleymanlegt. KA liðið tapaði fyrstu tveimur leikjunum og var því komið í ansi erfiða stöðu enda þurfti Valur aðeins einn sigur í viðbót til að tryggja sér titilinn og var auk þess með heimaleikjaréttinn í einvíginu.

En KA liðið lagði ekki árar í bát og minnkaði muninn í 2-1 með afar sannfærandi 20-25 sigri í þriðja leik liðanna að Hlíðarenda. Halldór Jóhann Sigfússon var markahæstur í KA liðinu með 11 mörk (5 úr vítum), Sævar Árnason 4, Andrius Stelmokas 3, Heiðmar Felixson 2, Einar Logi Friðjónsson 2, Jónatan Magnússon 1, Heimir Örn Árnason 1 og Jóhann Gunnar Jóhannsson 1 mark.


Hér má sjá útsendingu RÚV frá þriðja leik liðanna

Með sigrinum tryggði KA sér fjórða leikinn í einvíginu og fór hann fram í KA-Heimilinu. KA þurfti áfram á sigri að halda til að halda einvíginu á lífi og voru stuðningsmenn liðsins heldur betur klárir í slaginn. Rúmlega 1.300 manns troðfylltu KA-Heimilið á þessum síðasta heimaleik liðsins undir stjórn Atla Hilmarssonar sem hafði gefið það út að hann myndi hætta eftir tímabilið.

Leikurinn var vægast sagt stál í stál og voru taugar allra á staðnum þandar til hins ítrasta. Lítið var skorað en KA leiddi 8-7 í hléinu. Sama var upp á teningunum í þeim síðari og ljóst að enginn sem var á svæðinu mun gleyma þessum leik.


Hér má sjá útsendingu RÚV frá fjórða leiknum ógleymanlega

KA liðið var komið í mikil vandræði í sóknarleik sínum í síðari hálfleik en þá steig hinn 18 ára gamli Baldvin Þorsteinsson steig upp og gerði fjögur mörk, þar á meðal ógleymanlegt mark úr víti þegar hann lagði boltann yfir hausinn á Roland Eradze í markinu. Að lokum vann KA lífsnauðsynlegan 17-16 sigur og tryggði sér þar með hreinan úrslitaleik að Hlíðarenda um titilinn.

Þórir Tryggvason ljósmyndari var á svæðinu eins og svo oft áður og birtum við hér myndaveislu hans frá leiknum. Við kunnum Þóri bestu þakkir fyrir myndirnar en hann tók sig til og skannaði og vann þessar myndir sem voru teknar á filmu á sínum tíma!


Sigurgleðin var gríðarleg í leikslok. Smelltu á myndina til að skoða myndaveislu Þóris frá leiknum


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is