Þorvaldur aðstoðar Örnu í vetur

Handbolti

Þorvaldur Þorvaldsson verður aðstoðarþjálfari KA/Þórs í vetur og verður því Örnu Valgerði Erlingsdóttur innan handar. Er þetta afar jákvætt skref en Valdi er rétt eins og Arna öllum hnútum kunnugur innan félagsins og er auk þess hokinn reynslu bæði sem leikmaður og þjálfari.

Valdi er einn af leikjahæstu leikmönnum í sögu KA en hann lék alls 452 keppnisleiki fyrir félagið en einnig lék hann 66 leiki fyrir sameiginlegt lið Akureyrar Handboltafélags og lék því samtals yfir 500 leiki fyrir okkar félag. Með KA varð hann Íslands-, Bikar- og Deildarmeistari sem og Meistari Meistaranna auk þess að leika fjölmarga Evrópuleiki. 

Valdi var síðar aðstoðarþjálfari Jónatans Magnússonar hjá KA/Þór en þeir félagar stýrðu liðinu frá árinu 2016 til ársins 2019 og tryggðu liðinu á þeim tíma sæti í efstu deild og komu liðinu einnig í bikarúrslitahelgina.

Við erum afar ánægð með að hafa tryggt þau Örnu og Valda í þjálfarateymið og ljóst að við munum halda áfram að halda í okkar gildi sem eru að gefa okkar ungu og öflugu iðkendum tækifæri á að sýna sig og sanna og byggja þar með upp sterkt lið af uppöldum leikmönnum.

Á sama tíma erum við afar ánægð með að gera áframhaldandi samning við Egil Ármann Kristinsson sem styrktarþjálfara liðsins en Egill sér um líkamsræktarstöðina Training for Warriors sem er staðsett í KA-Heimilinu. Egill hefur mikla sérfræðiþekkingu sem nýtist vel í okkar starfi auk þess sem hann hefur afar góða innsýn inn í handboltaheiminn sem fyrrum leikmaður sem og þjálfari.

Handboltaveislan hefst hjá stelpunum okkar þann 9. september næstkomandi þegar KA/Þór tekur á móti ÍBV í KA-Heimilinu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is