Síðasta korterið í leiknum spiluðu stelpurnar góða vörn og náðu að halda aftur af markaskorun HK en því miður kviknaði
ekki á sókninni fyrir vikið. Lokatölur 26-24 og vonbrigðin gríðarleg í leikslok.
Sóknarlega spilaði Kolbrún Gígja virkilega vel og dró vagninn en það vantaði að fleiri myndu stíga upp og láta að sér
kveða.
Á sunnudeginum spiluðu stelpurnar því um 3. sætið gegn liði Hauka. Leikurinn byrjaði ágætlega, jafnt framan af og stemmingin í liðinu merkilega góð en það vantaði að stíga þetta eina skref í viðbót og loka vörninni. Sóknin gekk mjög vel en vörnin, sem hefur verið aðalsmerki þessa liðs í vetur, var eins og sjálfvirk hurð sem opnast þegar einhver kemur nálægt. Þetta nýttu Hauka stelpur sér með eindæmum vel og voru með sex marka forustu í hálfleik. Í hálfleik var breytt um taktík í vörninni og við það lokaðist hún. KA/Þór fór að saxa á forskotið og náðu að jafna þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Stelpurnar fengu þrjú tækifæri til að komast yfir en nýttu það ekki. Þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum var KA/Þór með boltann og staðan jöfn. Stelpurnar fá þá dæmda á sig leiktöf fyrir einskæran klaufaskap og Haukastelpur fara upp og skora. KA/Þór stelpur klikkuðu á tveimur færum þessa síðustu mínútu og Haukastelpurnar lönduðu sigri. Eftir sátu svekktar norðanstúlkur með ekkert í höndunum.
Það er virkilega svekkjandi að horfa á eftir öllum þremur verðlaunapeningunum í hendurnar á öðru liði eftir þennan vetur.
Stelpurnar hafa á köflum spilað virkilega vel og áttu svo sannarlega skilið að koma með eitthvað heim þessa helgi. Því miður
þá varð hausinn þeim að falli í leiknum gegn HK. Taugarnar réðu illa við það sem var undir og því fór sem fór.
Það jákvæða sem hægt er að taka út úr þeim leik er stórleikur Lovísu í markinu og mjög góður leikur
Kolbrúnar Gígju. Í leiknum gegn Haukum fá stelpurnar mikið hrós fyrir þann karakter sem þær sýndu í seinni hálfleik
að rífa sig upp á rassgatinu og koma sér inn í leikinn aftur. Mörg lið hefðu brotnað í þessari stöðu en þær
héldu áfram og því er það enn grátlegra að horfa á eftir sigrinum.
Í seinni hálfleik stigu stelpurnar allar upp og stóðu sig með sóma. Sóknin var að vísu aldrei vandamál í leiknum en varnarlega voru
þær að gera allt of mikið af mistökum. Þá vantaði helst þennan þátt í vörnina að klára brotið en um leið og
þær fóru að gera það lokaðist vörnin.
Sorgleg niðurstaða á góðum vetri er 4. sætið.
Liðið mun taka miklum breytingum eftir veturinn en Lovísa, Arna og Arndís ganga upp úr flokknum núna í sumar. Það á samt ekki að breyta
því að þær stelpur sem skipa 3. flokkinn á næsta ári eiga að setja þá kröfu á sjálfa sig að stíga upp
og taka við keflinu. Ljóst er að ef liðið æfir vel í sumar og næsta vetur mun þetta lið vera feiknasterkt áfram og munu þær eiga
allan möguleika á því að standa sig á næsta keppnistímabili.
Það er undir þeim sjálfum komið hvernig næsti vetur spilast.