Toppslagur á Hlíðarenda í kvöld

Handbolti

Það er heldur betur stórleikur framundan í Olísdeild kvenna í handboltanum í kvöld þegar KA/Þór sækir Val heim að Hlíðarenda klukkan 18:30. Lið Vals er á toppi deildarinnar með 8 stig en KA/Þór hefur stigi minna og ljóst að gríðarlega mikilvæg stig eru í boði í leik kvöldsins.

Leikurinn átti að fara fram á laugardaginn síðasta en honum var frestað enda var ófært milli Akureyrar og Reykjavíkur. Leikið er afar þétt í deildinni þessa dagana enda stutt síðan handboltinn fór aftur af stað eftir Covid pásu og líklega fáum við betri leik fyrir vikið þar sem liðin hafa fengið aðeins meiri pásu til að jafna sig eftir undanfarna leiki.

KA/Þór hefur unnið báða leiki sína á nýju ári, fyrst vannst 20-21 útisigur á Haukum þar sem stelpurnar voru komnar með sjö marka forskot áður en Haukar komu til baka en sem betur fer héldu stelpurnar út og tryggðu sigurinn. Þær gerðu svo enn betur er HK kom norður á dögunum og unnu 31-19 stórsigur þar sem þær stigu aldrei af bensíngjöfinni.

Lið Vals hefur hinsvegar unnið báða sína leiki ansi sannfærandi og virka í toppstandi. Þær unnu 28-21 sigur á Stjörnunni áður en þær unnu 15-37 sigur á botnliði FH. Það er ljóst að verkefni kvöldsins er ansi krefjandi en stelpurnar okkar eru klárar í slaginn.

Engir áhorfendur eru leyfðir í Origo höllinni en leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hvetjum við ykkur eindregið til að fylgjast með gangi mála, áfram KA/Þór!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is