Unglingaflokkur kvenna: KA/Þór með sigur á ÍBV

Síðastliðinn föstudag mætti ÍBV í heimsókn til Akureyrar til að etja kappi við KA/Þór í 3. flokki kvenna. Liðin höfðu mæst fyrr í vetur en þá fór ÍBV með sigurorð í hörkuleik 30-27. ÍBV situr í 3. sæti deildarinnar á meðan KA/Þór situr í 7. sæti og berst fyrir því að komast í úrslitakeppnina en efstu 6 sætin í deildinni gefa sæti í úrslitakeppninni.

Leikurinn fór jafnt af stað en ÍBV ávalt skrefi á undan norðanstúlkum. KA/Þór var þó að spila glimrandi leik fyrir utan það að ótrúlega mörg dauðafæri fóru forgörðum og var það í rauninni það sem skildi liðin að í fyrri hálfleik. ÍBV náði að komast í 8-12 og 9-13 en KA/Þór náði að minnka muninn í 12-13 áður en hálfleiksflautan gall.

Í síðari hálfleik náðu heimastúlkur þó að jafna metin mjög fljótt í 13-13 og svo var jafnræði með liðunum næstu mínútur. KA/Þór spilaði gríðarlega öfluga vörn sem ÍBV átti í miklum vandræðum með og Lína Aðalbjargardóttir var svo ógnarsterk í markinu hjá heimastúlkum. KA/Þór komst svo yfir í stöðunni 18-17 en ÍBV náði að jafna um hæl. Þá sögðu KA/Þór "hingað og ekki lengra". Þær gjörsamlega skelltu í lás og náðu fjögurra marka forystu í stöðunni 22-18. Þá tók ÍBV á það ráð að taka þær Birtu Fönn og Laufeyju Láru úr umferð og við það kom hik í sóknarleik KA/Þórs. Við það gengu gestirnir á lagið og náðu að jafna metin í 23-23. Þá tók þjálfari KA/Þórs leikhlé og lagði upp ákveðin sóknarleik sem skilaði sér hjá heimaliðinu. Þær náðu að komast tveimur mörkum yfir í stöðunni 25-23 og héldu þeim mun út leikinn en þegar lokaflautan gall var staðan 26-24 og KA/Þór átti aukakast sem Laufey ákvað að taka. Hún gerði sér lítið fyrir og skoraði úr því þannig að lokatölur í leiknum voru 27-24.

Frábær barátta hjá stelpunum að skila enn einum sigrinum en stelpurnar eru búnar að sigra 5 af 8 leikjum það sem af er 2014. Nú eru tveir leikir eftir í deildinni og ætla stelpurnar svo sannarlega að sigra þá báða og reyna að komast í 6. sætið og vinna sér þáttökurétt í úrslitakeppninni.

Markaskor KA/Þórs í leiknum:
Arna Kristín Einarsdóttir 8, Stefanía Theodórsdóttir 6, Birta Fönn Sveinsdóttir 5, Laufey Lára Höskuldsdóttir 4, Aldís Anna Höskuldsdóttir 3 og Rakel Ösp Sævarsdóttir 1.

Í markinu var Lína Aðalbjargardóttir gríðarlega öflug en hún varði 17 skot.