Útileikir í Olís deildunum en heimaleikur í Grillinu

Handbolti
Útileikir í Olís deildunum en heimaleikur í Grillinu
Ungmennaliðið á heimaleik á sunnudaginn

Meistaraflokksliðin okkar í handboltanum leika öll um helgina en KA og KA/Þór fara suður og fá bæði sjónvarpsleik á Stöð 2 Sport. Ungmennalið KA tekur hinsvegar á móti Gróttu í KA-Heimilinu á sunnudaginn og því nóg um að vera í handboltanum.

Karlalið KA ríður á vaðið er liðið sækir Fram heim á laugardaginn og hefst leikurinn klukkan 16:00. Ljóst er að gríðarlega mikilvæg stig eru í boði en fyrir leikinn eru Framarar með 6 stig en KA er stigi á eftir með 5 stig. Bæði lið ætla sér í úrslitakeppnina í vor og klárt mál að stigin tvö munu skipta sköpum þegar talið verður í lok vetrar.

Kvennalið KA/Þórs sækir hinsvegar botnlið Aftureldingar heim á sunnudaginn klukkan 18:00. Fyrir leikinn eru stelpurnar í hinu mikilvæga 4. sæti með 6 stig en þær þurfa nauðsynlega að klára leikinn um helgina enda HK aðeins stigi á eftir í 5. sætinu og þar á eftir koma Haukar með 4 stig.

Ungmennalið KA tekur svo á móti Gróttu í KA-Heimilinu klukkan 17:00 en strákarnir eru með 6 stig eftir fyrstu fimm leiki vetrarins og hafa unnið alla sína heimaleiki til þessa. Verkefni helgarinnar verður strembið enda er Grótta með hörkulið sem ætlar sér aftur upp í deild þeirra bestu en strákarnir eru að sjálfsögðu klárir í slaginn.

Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta á leiki okkar liða um helgina en minnum aftur á að KA og KA/Þór leikirnir verða báðir í beinni á Stöð 2 Sport auk þess sem að KA-TV mun sýna leik Ungmennaliðsins á sunnudaginn.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is