Valsstúlkur reyndust ofjarlar KA/Þór í kvöld

Steinþóra skoraði tvö góð mörk
Steinþóra skoraði tvö góð mörk

Það var fyrirfram vitað að það yrði á brattann að sækja fyrir lið KA/Þór í kvöld þegar Valskonur mættu á svæðið, eina taplausa liðið í boltanum í dag. Valur tók leikinn þegar í sínar hendur og náðu fljótlega öruggri forystu ekki síst með öflugri vörn sem skilaði þeim aragrúa hraðaupphlaupa sem skiluðu ódýrum mörkum.

Forysta Valsstúlkna varð tíu mörk 6-16 og þannig hélst hún fram að hálfleik en hálfleiksstaðan var 10-19.

Eins og áður segir fengu Valskonur mörg mörk úr hraðaupphlaupum og einhvernvegin hafði maður á tilfinningunni að heimastúlkur bæru fullmikla virðingu fyrir Valsliðinu a.m.k. vantaði upp á grimmd í vörninni og berja duglega frá sér. Selma markvörður tók síðustu þrjú hraðaupphlaup Valsmanna í fyrri hálfleik og gaf tóninn fyrir seinni hálfleikinn.

Forysta Vals varð mest þrettán mörk í seinni hálfleik en stelpurnar réttu sinn hlut undir lok leiksins, ekki síst var það góðri markvörslu Selmu að þakka. Lokatölur urðu 20-31 fyrir Val sem situr sem fastast á toppi deildarinnar.

 

Valskonur voru miklu grimmari í vörninni eins og hér sést.

Martha Hermannsdóttir var langatkvæðamest í sóknarleiknum hjá KA/Þór og skoraði 9 mörk, þar af 4 úr vítum. Arna Valgerður Erlingsdóttir og Unnur Ómarsdóttir skoruðu 3 mörk hvor, Steinþóra Heimisdóttir kom inn á undir lok leiksins og skoraði tvö góð mörk líkt og Kolbrún Einarsdóttir en Sunnefa Nílsdóttir skoraði 1 mark.

Það var þó Selma Sigurðardóttir sem var maður leiksins hjá KA/Þór en hún varði alls 15 skot í leiknum, þar af eitt vítakast og gaf landsliðsmarkverðinum Berglindi ekkert eftir í seinni hálfleiknum.

Hjá Val voru skoruðu Karólína Gunnarsdóttir og Nína K. Björnsdóttir 6 mörk hvor, Hildigunnur Einarsdóttir 5 og Hrafnhildur Skúladóttir 4. Berglind Íris Hansdóttir var öflug í Valsmarkinu með 25 skot varin og var maðurinn á bak við fjölmörg hraðaupphlaup Vals.

Eftir leiki kvöldsins varð engin breyting á stöðu liða á toppi og botni deildarinnar en KA/Þór er í 7. sætinu með 7 stig. Næsti leikur liðsins er á útivelli gegn Fram og verður hann laugardaginn 6. febrúar.


Stemming á varamannabekknum í kvöld

Sjá fleiri myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum