VefTV: Gamalt og gott myndband í tilefni dagsins

Í dag er fyrsti í handbolta, eða það má að a.m.k. orða það þannig, en í kvöld mætir Ísland Serbum á EM í handbolta. Leikurinn verður, eins og áður hefur komið fram, sýndur í KA heimilinu og mun Jónatan Magnússon spjalla um sínar væntingar fyrir EM hálftíma fyrir leik. En í tilefni dagsins ætlum við að birta hér myndband sem tíðindamaður síðunnar fann á ferðum sínum um netið á dögunum. Myndbandið er af skondnu atviki í lok leiks KA og Þórs í 16 liða úrslitum SS-Bikarsins 1998. Þetta atvik lýsir vel stemmingunni hér í "gamla daga" þegar KA og Þór öttu kappi og leikvangurinn fylltist af æpandi fólki og spennan var mikil. Við erum ekki alveg klárir á hverjir eru að lýsa en talið er að þetta sé frá útsendingu Aksjón.

Vídjóinu er lýst sem svo á YouTube:
Þór Akureyri gegn KA í Íþróttahöllinni í 16-liða úrslitum SS-bikarsins 15. desember 1998. Hérna sjáum við síðustu mínútuna í leiknum. Þarna má sjá ýmsa fræga leikmenn eins og Guðjón Val Sigurðsson, Jónatan Þór Magnússon, Jóhann Gunnar Jóhannsson og fleiri. Það er hinsvegar Ingólfur Samúelsson sem slær í gegn er hann skallar Halldór Jóhann Sigfússon.

Þór - KA í Íþróttahöllinni 1998