Vel lukkuð aðgerð að halda úti B liði hjá 3. flokki KA/Þór

Í vetur var í fyrsta skipti sent til leiks B lið 3. flokks kvenna hjá KA/Þór. Ljóst var fyrir veturinn að fjöldinn væri slíkur að erfitt yrði að gefa öllum tækifæri á að spila mikið með A liðinu og því nauðsynlegt að búa til vettvang fyrir þær sem hugsanlega hefðu spilað minna með A liðinu yfir veturinn.

Þegar horft er til framtíðar er það auðvitað nauðsynlegt að búa til vettvang fyrir leikmenn til að spila í yngri flokkunum auk þess sem ekki allir 16 ára unglingar eru tilbúnar að ganga inn í meistaraflokksálag og var þetta því fyrsta skref í að búa til þessa brú á milli sem hefur vantað í kvennaboltanum til að sporna við brottfalli.

Þrátt fyrir nokkur afföll af leikmönnum í vetur hefur tekist að búa til ágætis kjarna í kringum B liðið og hefur sá kjarni vaxið og dafnað nokkuð vel. Tvær til fjórar 4. flokks stelpur hafa verið notaðar til þess að fylla upp í hópinn og hefur þessi reynsla verið þeim dýrmæt. Þær sem eru í 3. flokk og spila með liðinu hafa líka þurft að taka á sig aukna ábyrgð og er óhætt að segja að það verkefni hafi tekist með ágætum. Sýndi sig til að mynda nokkuð vel í Víkingsleiknum hjá A liðinu um helgina að þær sem höfðu verið teknar upp í A liðið fyrir úrslitakeppnina voru óhræddar að láta að sér kveða með A liðinu eftir að hafa þurft að draga vagninn í B liðinu yfir veturinn.

Eins og áður sagði eru einstaklingsframfarirnar hjá stelpunum í B liðinu mikið ánægjuefni. Hins vegar hefur það auðvitað haft sitt að segja að í liðinu voru þrjár sem byrjuðu að æfa handbolta í vetur, tvær sem voru dregnar á flot og síðan leikmenn sem hingað til hafa sloppið við það að stíga upp þegar þess var þörf í leikjum þar sem þær hafa verið umkringdar slíkum leikmönnum í gegnum yngri flokkana. Niðurstaða vetrarins hjá B liðinu er þrjú stig í 2. deild kvenna sem er kannski fljótt á litið ekki frábær árangur en miðað við þær framfarir sem margar þeirra hafa tekið mega þær nokkuð vel við una. Eftir áramót fóru stelpurnar að spila nokkuð vel og náðu til að mynda sínum stigum þegar líða fór á seinni hluta vetrar.