Um helgina 3.-4.október bauð HSÍ upp á námskeið fyrir íþróttakennara, handboltaþjálfara og leikmenn á Akureyri.
Kristján Halldórsson og Boris Abakchef komu frá HSÍ og stjórnuðu æfingum fyrir ungmenni og þjálfara síðari hluta föstudags og á laugardag.
Á fyrsta hluta námskeiðsins var farið var yfir nýjar áherslur fyrir yngri krakka í handbolta svokallað ,,softball“ eða minnibolti. Þar er spilaður handbolti með mjúkan bolta, fáir í liði og minni mörk. Þetta gefur krökkum meiri möguleika á hreyfingu og að allir fái að njóta sín.
Annar hluti námskeiðsins var fyrir stóra (hávaxna) krakka eða unglinga og farið yfir hreyfingar þeirra og skot. Í þriðja hlutanum voru svo hornamenn teknir fyrir og þeim veitt tilsögn í skotum.
Margir þjálfarar KA og Þórs voru á námskeiðinu og auk þeirra voru mörg ungmenni félaganna með á þessum æfingum. Allir voru sammála um að þetta væri lofsvert framtak hjá HSÍ og efldi áhuga bæði leikmanna og þjálfara.