Þeir Sævar, Jóhann Gunnar og Guðmundur flugu frá Akureyri til Kaupmannahafnar mánudaginn 3. ágúst og keyrðu svo beint til Kiel. Þangað voru þeir komnir um eitt eftir miðnætti en Alfreð ætlaði að sækja þá á hótelið kl. átta næsta morgun.
Á þriðjudeginum voru tvær æfingar, lyftingar kl. níu og handbolti í sal kl. fimm síðdegis. Á miðvikudeginum var skotæfing kl. níu og handbolti í sal kl. fimm síðdegis. Á fimmtudeginum var svo sprettæfing á íþróttavellinum kl. níu og handboltaæfing síðdegis.
Aron, Gummi og Marcus Ahlm hita upp fyrir lyftingar
Börge Lund, Cristian Zeitz og Dominik Klein lesa nýjustu fréttir á meðan þeir hjóla
Gummi og Filip Jicha í jafnvægisæfingum
Kim Anderson og Cristian Zeitz
Þessa þrjá daga æfði Guðmundur með aðalliðinu en Jóhann og Sævar fylgdust með og fengu aðeins að taka þátt líka. Þannig tók Brói virkan þátt í skotæfingunni en ekki gekk eins vel hjá Sævari þegar hann átti að reyna að halda línumönnunum Marcus Ahlm og Igor Anic.
Óhætt er að segja að Guðmundur hafi staðið sig frábærlega vel. Hann fékk að taka fullan þátt í öllum æfingum liðsins og nýtti tækifærið vel. Honum var gríðarlega vel tekið og féll vel í hópinn. Sérstaklega var hann vinsæll á miðvikudeginum en þá átti drengurinn 17 ára afmæli og var því spilaður auka fótbolti.
Alfreð að fara yfir 3-2-1 vörn
Gummi að ræða málin við Dominik Klein
Aron Pálma, Marcus og Kim
Gummi og Cristian Zeitz
Filip Jicha, Alfreð og Aron
Gummi sækir á Kim Andersson og Marcus Ahlm
Fyrir Bróa og Sævar var þetta einnig góð reynsla og í raun eins og besta þjálfaranámskeið, að fá að fylgjast með besta félagsliði heims í nokkra daga við æfingar.
Á föstudeginum var heimferðadagur hjá drengjunum en Kiel var með lyftingaæfingu um morguninn og svo æfingaleik við lið í nágrannabæjarfélagi. Á laugardeginum var svo kveðjuleikur fyrir Stefan Lövgren en löngu uppselt var í Sparkassen Arena, um 11.000 miðar seldir.
Kóngarnir í Kiel, Stefan Lövgren kíkti í heimsókn til Alfreðs fyrir kveðjuleikinn
Myndir Sævar Árnason og Jóhann Gunnar Jóhannsson