Síðstliðinn sunnudagsmorgun mættust KA/Þór og Fylkir í 1. deild 3. flokks kvenna. Fyrir hafði KA/Þór tapað illa gegn FH á útivelli þar sem nokkra lykilmenn vantaði ásamt því að liðið lék langt undir getu. Voru stelpurnar því staðráðnar í því að koma sér á beinu brautina gegn Fylki.
Leikurinn fór rólega af stað og skiptust liðin á að skora. Um miðjan fyrri hálfleik náðu heimastúlkur frumkvæðinu og leiddu með fjórum mörkum í hálfleik, 13-9.
Stelpurnar mættu síðan gríðarlega einbeittar inn í seinni hálfleikinn og skoruðu sjö fyrstu mörkin í hálfleiknum, bæði úr hraðaupphlaupum og uppstilltum sóknum og lögðu þar með grunninn að góðum og verðskulduðum sigri, 33-25.
Stelpurnar spiluðu allar gríðarlega vel í leiknum og erfitt að taka einhverja eina út. Allar sem komu inn skiluðu sínu hlutverki virkilega vel bæði í vörn og sókn. Vörnin var sterk og föst fyrir og stelpurnar grimmar í hraðaupphlaupum og Lovísa ákveðin fyrir aftan.
Um næstu helgi mæta síðan Haukastúlkur í heimsókn. Haukar hafa á að skipa gríðarlega jöfnu og sterku liði en ef stelpurnar mæta í þann leik eins og þær mættu inn í seinni hálfleikinn gegn Fylki eru fá lið sem geta staðið þeim snúning.
Markaskorarar KA/Þórs: Arna Erlingsdóttir 9 mörk, Steinþóra Heimisdóttir 6 mörk, Kolbrún Einarsdóttir og Sunnefa Nílsdóttir 5 mörk hvor, Iðunn Birgisdóttir 4 mörk, Aldís Mánadóttir og Arndís Heimisdóttir 2 mörk hvor.