Yfirburðasigur KA/Þór á Víkingum í dag - myndir

Það var skemmtileg stemming í KA heimilinu í dag þegar KA/Þór lék sinn fyrsta bikarleik á tímabilinu. Andstæðingarnir voru úrvalsdeildarlið Víkings. Fyrirfram áttu menn von á spennandi leik þar sem jafnt er komið með liðunum sem sitja án stiga á botni N1-deildarinnar.

Heimastelpurnar sýndu það strax frá fyrstu mínútu að það býr miklu meira í liðinu en staða þeirra í deildinni segir. Þær tóku leikinn gjörsamlega í sínar hendur og hreinlega völtuðu yfir gestina. Markataflan sýndi tölur eins og12-2 og áfram hélt munurinn áfram að aukast og í hálfleik var staðan orðin 18-4.

Stelpurnar spiluðu kröftuga vörn og leikgleðin skein af þeim og þær héldu áfram í seinni hálfleik. Allir leikmenn liðsins fengu að spreyta sig og stóðu sig vel, engu skipti þó allt byrjunarliðið væri komið á bekkinn, þær yngri og óreyndari héldu bara áfram að auka forystuna.

Að lokum var yfirburðasigur staðreynd, 36-13 og er það vissulega gott veganesti fyrir stelpurnar í næsta leik sem er einmitt útileikur gegn Víkingsliðinu á laugardaginn í N1-deildinni. 

Unnur Ómarsdóttir var valin maður leiksins en liðið allt stóð sig með miklum sóma og vonandi að nú liggi leiðin einungis upp á við.

Mörkin í dag skoruðu: Unnur Ómarsdóttir 7, Ásdís Sigurðardóttir og Martha Hermannsdóttir 6 mörk hvor, Katrín Vilhjálmsdóttir 5, Arna Valgerður Erlingsdóttir 4, Emma Havin Sardardóttir, Inga Dís Sigurðardóttir og Steinþóra Heimisdóttir 2 mörk hver, Kolbrún Einarsdóttir og Sunnefa Nílsdóttir sitt markið hvor.

Selma Sigurðardóttir stóð í markinu í fyrri hálfleik og varði 9 skot en Lovísa Oktavía Eyvindsdóttir sá um seinni hálfleikinn og varði sömuleiðis 9 skot.

 

 

Í liði Víkings var Anna María Björnsdóttir langatkvæðamest en hún skoraði 7 af 13 mörkum liðsins.

Dómarar leiksins voru Haddur J. Stefánsson og Ómar Ingi Sverrisson og komust þeir vel frá sínum störfum.

Við óskum stelpunum til hamingju með að vera komnar í 8-liða úrslit bikarkeppninnar og nú er bara að bíða og sjá hvaða mótherja þær fá í næstu umferð.

 

Sjá fleiri myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum.