Undanfarnar vikur hafa átt sér stað viðræður milli KA og Þórs með milligöngu ÍBA um áframhaldandi samstarf félaganna um rekstur Akureyri handbolta og KA/Þórs í kvennahandbolta.
Félögin hafa skipst á hugmyndum sínum og framtíðarsýn um uppbyggingu handknattleiks á Akureyri og skoðað alla möguleika á frekara samstarfi. Í þeim viðræðum hefur komið í ljós að félögin hafa mismunandi sýn á það hvernig best sé að standa að rekstri, samstarfi og uppbyggingu handboltans á Akureyri.
KA hefur því í framhaldinu ákveðið að ekki sé þörf á frekari viðræðum og samstarfi félaganna um rekstur sameiginlegs liðs undir merkjum Akureyrar handbolta. Félögin útiloka ekki samstarf í rekstri kvennaflokka.
Þór og KA þakka fulltrúum ÍBA fyrir sín störf í viðræðunum og óska hvort öðru velfarnaðar í uppbyggingu og keppni á handboltavellinum næstu árin.
Fyrir hönd félaganna
Sævar Pétursson framkvæmdastjóri KA
Valdimar Pálson framkvæmdastjóri Þórs