Yngra ár 4. kvenna smellti sér suður um helgina.
Yngra árið hjá KA/Þór átti erfiða helgi fyrir höndum þegar lagt var af stað á föstudagsmorgun. Fyrir láu þrír leikir. KA/Þór1 átti leik gegn ÍBV á Selfossi og KA/Þór2 átti leiki gegn Selfoss og Val.
KA/Þór1 hefur gengið í gegnum mikla hrinu meiðsla og veikinda síðustu vikurnar og voru þjálfarar liðsins hálf smeikir að ekki næðist í lið hreinlega um helgina. Tvær höfðu verið að sleikja sólina á Tene síðustu tvær vikur og óstaðfestar fregnir herma að önnur þeirra hafi lifað á McDonalds borgurum allan tímann. Vinstri skyttan puttabrotin, hægri skyttan handabrotin og gátu þær ekki spilað með en miðjumaðurinn Aldís Heimisdóttir beit á jaxlinn og spilaði þrátt fyrir að sjötti puttinn væri að vaxa út úr löngutöng hennar sökum puttabrots. Þar að auki hafði markmaðurinn Arnrún legið í flensu í tvær vikur og útlitið því ekkert sérstaklega bjart. Sérstaklega í ljósi þess að ÍBV og KA/Þór hafa iðulega átt mjög jafna leiki og vann ÍBV Íslandsmeistaratitilinn í fyrra í þessum aldursflokk, einu stigi á eftir þeim voru síðan KA/þór.
Það er þó ekki af þessum stelpum skafið að þrátt fyrir ótrúleg skakkaföll og þunnan hóp var leikurinn í járnum allan leikinn og KA/Þór alltaf skrefi á undan. Síðustu mínúturnar í leiknum voru nagandineglur spennandi og fór meðal annars hraðaupphlaup og eitt víti forgörðum hjá KA/þór áður en lagt var í síðustu sóknina í stöðunni 16-16. Vörn ÍBV stóðst áhlaupið og sanngjarnt jafntefli niðurstaðan.
Inn í klefa eftir leik fór kampakátur þjálfari með glæsilega niðurstöðu miðað við aðstæður. Inn í klefa sátu átta grautfúlar stelpur, hundfúlar að hafa tapað stigi. Þær hafa hugarfar sigurvegara, það er ljóst.
Una Kara fór fyrir sínu liði í markaskorun og Aldís mjög öflug, sérstaklega á lokakaflanum. Fyrir aftan sterka vörn norðanstúlkna var Arnrún Eik í miklum ham og endaði með 23 skot varin.
Flott stig í baráttunni en þær þurfa þó að muna að það sem þær lögðu í þennan leik þurfa þær að leggja í alla leiki. Þá mun veturinn verða þeim virkilega góður.
KA/þór2 spilaði beint eftir gegn Selfoss2. KA/Þór2 er lið sem er hugsað þannig að allar fái að spila, enda ekkert gaman að æfa ef maður spilar lítið. Í KA/þór2 eru fjórar sem byrjuðu að æfa í vetur og fjórar sem hafa verið lengur að æfa og eru þarna til að styðja við nýju stelpurnar. Úrslitin skipta ekki máli, heldur frekar ákveðnir þættir hjá hverjum og einum leikmanni. Í flestum leikjum fær liðið tvær til þrjár stelpur úr 5. flokk til að styrkja það en þessa helgi var það ekki í boði.
Gegn Selfoss2 spiluðu stelpurnar heilt yfir ágætlega. Voru hreifanlegri en oft áður og vörnin ágæt lengst af. Markmaður Selfoss fór reyndar ákaflega illa með okkar stúlkur og varði meðal annars tvö víti og aragrúa af dauðafærum. Lísbet Gestsdóttir sem undir venjulegum kringustæðum skipar hægri skyttu stöðuna í liði 1 er enn að jafna sig eftir handabrot og má ekki fara í nein átök en í markið mátti hún fara. Óhætt er að segja að hún hafi staðið sig vonum framar og varði fimm víti í þessum leik og fjölda skota í leiknum. Ef ekki hefði verið fyrir svipaða frammistöðu markmanns Selfoss hefði þessi leikur getað endað vel stigalega séð en svo varð nú ekki. Selfoss2 vann öruggan tíu marka sigur.
Leikurinn daginn eftir var gegn liði Vals, sem líkt og Þróttur um síðustu helgi er bara með eitt lið í 4. flokk kvenna, þar af leiðandi voru stelpur af eldra ári Vals í því liði. Það er þó óhætt að segja að stelpurnar spiluðu sinn langbesta leik í vetur og voru hreint út sagt frábærar. Úr varð hörkuleikur framan af og munurinn aldrei meiri en 2-4 mörk. Vörnin sterk og sóknin virkilega góð þrátt fyrir að inn á milli komu leiðinda tæknifeilar. Valur seig þó fram úr í lokin og náði átta marka sigri í flottum leik norðanstúlkna.
Heilt yfir er ekki annað hægt en að vera ánægður með helgina, stelpurnar sýndu flotta takta í báðum liðum og viljinn var svo sannarlega til staðar.
Nú kemur örlítið frí í deildarkeppnina hjá öllum þremur liðunum. Næstu leikir eru ekki fyrr en 17. nóvember þegar yngra árið fær Fjölni og KR í heimsókn.
Þannig að stelpurnar þurfa að nýta þetta frí vel í að bæta það sem þær þurfa að bæta og koma grimmar til leiks á heimavelli.
Þjálfarar