Yngra ár 4.flokks KA/Þórs áfram í bikarnum

Á laugardaginn spilaði KA/Þór2 við lið KR í 2. deildinni. Fyrri hálfleikurinn var langt frá því að vera ásættanlegur og staðan 13-3 í hálfleik fyrir KR. Síðari hálfleikurinn var þó mun betri og náðu KA/Þór stelpur að sýna sitt rétta andlit á köflum og spiluðu seinni hálfleikinn mun betur. KR stelpur voru þó talsvert sterkara lið og unnu sanngjarnan sigur 11-24.

Ólöf Marín Hlynsdóttir skoraði 5 mörk, Hulda Hannesardóttir 3, og Sædís Marínósdóttir, Elva Júlía Róbertsdóttir og Erna Birkisdóttir 1 mark hver. Í markinu varði Heiðbjört Guðmundsdóttir 11 bolta en flest mörkin komu úr algjörum dauðafærum.

Á sunnudeginum byrjaði KA/Þór1 að spila við lið Fjölnis. KA/Þór1 er óðum að ná vopnum sínum aftur og voru hinar þrjár brotnu mættar til leiks að nýju.

KA/Þór1 byrjaði leikinn mun betur og náði fljótt þægilegri sex marka forystu. Þá kom hins vegar slæmur kafli og þær hleyptu Fjölnisstelpum inn í leikinn aftur með slökum varnarleik og vitlausum ákvörðunum í sókninni ásamt því að klúðra sæg af dauðafærum. Staðan 12-9 í hálfleik fyrir KA/Þór. Síðari hálfleikur var mun betri varnarlega. Þær lokuðu vörninni og Arnrún var vel á verði fyrir aftan og náðu þær að halda Fjölnisstelpum í sex mörkum í síðari hálfleik og unnu að lokum góðan 20-15 sigur á sterku Fjölnisliði. Sérstaklega var skemmtilegt að sjá Kristínu Jóhannsdóttur sem er nýstigin upp úr leiðinlegum meiðslum taka af skarið þegar þess þurfti og skora mikilvæg mörk.

Kristín Jóhannsdóttir 6 mörk, Aldís Heimisdóttir 4, Lísbet Gestsdóttir 4, Margrét Árnadóttir 3 og Una Kara Vídalín 3. Í markinu varði Arnrún 14 bolta.

Strax eftir leikinn gegn Fjölni spilaði sameiginlegt lið yngra árs við lið KR í 16 liða úrslitum bikarsins. Leikurinn spilaðist á margan hátt líkt og Fjölnisleikurinn. Sóknin gekk ágætlega en varnarleikurinn slakur. Staðan í hálfleik var þó 10-6 fyrir KA/Þór. Seinni hálfleikur byrjaði illa, KR saxaði hratt á forskotið og vörnin hélt litlu. Með því að skipta um vörn þéttist varnarlínan mikið og náðu þær að stilla saman strengi að nýju og stoppa sóknir KR stúlkna. Lokatölur 20-14 fyrir KA/Þór og þær komnar í 8 liða úrslit í bikar. Leikurinn spilaðist heilt yfir ágætlega, stelpurnar úr KA/Þór1 spiluðu þarna tvo leiki í röð og því eðlilegt að einhver þreyta gerði vart við sig. Allar fengu þó að spila og komust vel frá þessu verkefni. Aldís Heimisdóttir fór mikinn í leiknum og héldu henni engin bönd. Skoraði hún tíu mörk í öllum regnbogans litum án þess að spila sóknina hluta leiks og var dugleg að finna samherja sína í betra færi þegar þannig bar við.

Mörkin skoruðu Aldís Heimisdóttir 10 mörk, Una Kara Vídalín 5, Margrét Árnadóttir 4, Kristín Jóhannsdóttir 3, Lísbet Gestsdóttir og Ólöf Marín Hlynsdóttir 1.  Í markinu varði Arnrún 16 bolta.