KA/Þór - Haukar
Leikurinn byrjaði mjög spennandi og var jafnræði með liðunum fyrstu mínúturnar. Eftir um 15 mínútna leik tóku Haukar forystuna og sigu hægt og bítandi framúr. Þegar um 10 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik hrökk KA/Þór í gang og minnkaði muninn úr 4-9 í 11-11 og þannig var staðan í hálfleik.
Í síðari hálfleik virtist hinsvegar allur vindur úr KA/Þór stúlkum, þó þær hafi komist yfir í 12-11 þá komust Haukar fljótt í 12-14 og juku forskotið jafnt og þétt.
Leikurinn endaði með 8 marka sigri Hauka 17-25. Ástæðan fyrir tapinu var hreinlega of margir sóknarfeilar, of mikið af lélegum skotum og klikkuðum vítum. Sóknarleikurinn heilt yfir var nokkuð góður og skapaði liðið sér ótrúlega mörg mjög góð færi, en markmaðurinn hjá Haukum klárlega maður leiksins þar sem hún reyndist KA/Þór stúlkum mjög erfið.
Markaskor KA/Þór:
Birta Fönn Sveinsdóttir 8, Þórunn Eva Sigurbjörnsdóttir 2, Stefanía Theodórsdóttir 2, Arna Kristín Einarsdóttir 1, Laufey Lára Höskuldsdóttir 1, Aldís Anna Höskuldsdóttir 1, Harpa Rut Jónsdóttir 1 og Þórey Lísa Þórisdóttir 1.
KA/Þór - Fram
Síðari leikur helgarinnar var á móti geysi sterku Fram liði. Fram er taplaust á toppi deildarinnar og því erfiður leikur fyrir KA/Þór framundan. Leikurinn byrjaði með því að jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar svo tók KA/Þór forystuna og leiddi lengst af fyrri hálfleiks og komst mest 4 mörkum yfir í stöðunni 12-8. Þá slökuðu stelpurnar aðeins á og Fram komst aftur inn í leikinn og skoraði 5 mörk í röð áður en flautan gall og staðan því 12-13 Fram í vil í hálfleik.
Í síðari hálfleik jók Fram forystuna í 3 mörk en KA/Þór minnkaði muninn í 17-18 og leikurinn í járnum þar til KA/Þór fékk vafasama brottvísun og Fram gekk á lagið og komst 4 mörkum yfir og sá munur hélst allt til loka leiks. Lokatölur 22-26.
Heilt yfir var leikurinn góður hjá stelpunum þrátt fyrir klaufaleg mörk sem Fram skoraði ásamt því að missa boltann frá sér aðeins of oft í sókninni. En mikil framför frá því í leikjunum við HK og Hauka fyrr í vikunni og því ekki hægt að kvarta. Þetta sýnir stelpunum að munurinn á efsta sætinu og neðsta sætinu í deildinni er alls ekki mikill, ef hann er einhver og klaufaskapur að ná ekki að taka stig af Fram í þetta skiptið.
Markaskor KA/Þór:
Arna Kristín Einarsdóttir 9, Birta Fönn Sveinsdóttir 6, Harpa Rut Jónsdóttir 3, Laufey Lára Höskuldsdóttir 2, Berghildur Þóra Hermannsdóttir 1 og Ásdís Guðmundsdóttir 1.
Stelpurnar eru nú í pásu frá leikjum þangað til 12. janúar, en þá mætir Valur í heimsókn. Stelpurnar gerðu jafntefli við Val í fyrsta leiknum á tímabilinu og eru staðráðnar í því að ná í sinn fyrsta sigur í fyrsta leik á nýju ári.