Stelpurnar í 3. flokki KA/Þórs fóru suður um helgina og léku tvo leiki. Fyrri leikurinn var við HK á föstudagskvöldið en síðari leikurinn var við Selfoss á sunnudag.
Á föstudagskvöldið mættu stelpurnar dýrvitlausar til leiks í Digranesinu. Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar og þegar um 10 mínútur voru búnar af leiknum var staðan 5-6 KA/Þór í vil. Þá sögðu stelpurnar hreinlega stopp. Vörnin small fullkomlega, sjálfstraustið í sóknarleiknum var algjört og stelpurnar röðuðu inn mörkum. Á síðustu 20 mínútum fyrri hálfleiks náðu stelpurnar 5-11 kafla og leiddu í hálfleik 10-17.
Í síðari hálfleik náði HK aðeins að komast inní leikinn og minnkaði muninn niður í 5 mörk og þegar skammt var búið af síðari hálfleik fékk Arna Kristín Einarsdóttir, leikmaður KA/Þór, tvær brottvísarnir í röð og það var hennar önnur og þriðja brottvísun og þ.a.l fékk hún útilokun frá leiknum. KA/Þór vantaði því skyttu síðustu 22 mínúturnar í leiknum og voru einum færri í 4 mínútur. HK náði að minnka muninn í fjögur mörk í stöðunni 16-20 og illa gekk hjá norðanstúlkum í nokkrar mínútur. Þá stigu aðrir leikmenn upp og stelpurnar gáfu í og HK átti hreinlega ekki roð í KA/Þór. Leikurinn endaði svo með 9 marka sigri norðanstúlkna 22-31 og stelpurnar því komnar með 5 stig í deildinni.
Sunnudagsleikurinn var fyrirfram gríðarlega erfiður leikur enda Selfoss með eitt sterkasta lið landsins í þessum aldursflokki. Margar stelpur KA/Þór voru líka að spila þriðja leikinn sinn á þrem dögum (meistaraflokkur spilaði á laugardeginum) svo þreytumerki voru á stelpunum.
Leikurinn byrjaði hörmulega hjá stelpunum og nákvæmlega ekkert gekk upp. Selfoss lék við hvern sinn fingur bæði varnarlega og sóknarlega en þær náðu strax góðri forustu í stöðunni 6-0. Þegar um 25 mínútur voru búnar af leiknum var staðan 11-3 Selfossi í vil, en þá ákváðu KA/Þór að spýta í lófana, sóknarlega og náðu að setja 3 mörk á stuttum tíma en Selfoss leiddi með 11 marka mun í hálfleik 17-6.
Í hléinu fengu stelpurnar einföld skilaboð. Það er gríðarlega erfitt að vinna upp 11 marka mun á móti svona sterku liði. Því fengu stelpurnar þau skilaboð að taka svoldið fast á andstæðingunum, hafa gaman af því að spila sama hvað staðan væri og spila varnarleikinn framar og vinna seinni hálfleikinn. Stelpurnar tóku þjálfarann á orðinu. Stemmningin sem myndaðist innan liðsins var ótrúleg, sóknarleikurinn varð mun betri og varnarleikurinn varð alveg fáránlega góður en stelpurnar fóru eiginlega í maður á mann vörn allan seinni hálfleikinn og átti Selfoss engin svör. Stelpurnar spiluðu eins fast og þær máttu og skoraði Selfoss bara þegar þær stilltu upp fyrir skytturnar í fríkasti. KA/Þór náði því öllum þeim markmiðum sem sett voru fyrir í hálfleik en síðari hálfleikinn vann KA/Þór 9-12 og lokatölur í leiknum því 26-18 Selfossi í vil.
Næstu helgi á liðið svo harma að hefna gegn FH en þær sigruðu einmitt KA/Þór með minnsta mun í bikarleik fyrir jól.