Um helgina var leikin B-keppni Íslandsmótsins í handknattleik í 3. flokki kvenna. Mótið var haldið í Mosfellsbæ og tóku 8 lið þátt. Leikið var með útsláttarfyrirkomulagi þar sem sigurliðin héldu áfram keppni en tapliðin voru úr leik. KA/Þór átti lið í keppninni og svo fór að liðið sigraði alla þrjá leikina sína og stóð uppi sem B-Íslandsmeistari í 3. flokki kvenna árið 2014.
KA/Þór - Fylkir (8-liða úrslit)
Leikurinn byrjaði vel hjá norðanstelpunum og komust þær fljótt í 5-1 en þá héldu þær að leikurinn yrði auðveldur og fóru að gera sér erfitt fyrir með ýmsum klaufamistökum. Fylkir refsaði um hæl og jafnaði leikinn í 7-7 og komust svo yfir stuttu síðar og héldu eins marks forystu út hálfleikinn en KA/Þór náði að jafna metin rétt fyrir hálfleik og staðan 13-13 þegar liðin gengu til búningsklefa.
Hálfleiksræðan hjá þjálfara KA/Þór skilaði sér greinilega því síðari hálfleikur var eign norðanstúlkna. Þær hreinlega gengu yfir Fylki eins og þær fengju borgað fyrir það og endaði leikurinn þannig að KA/Þór sigraði með 31 marki gegn 21 marki Fylkis. Arna Kristín Einarsdóttir lék gríðarlega vel í leiknum og var markahæst og var klárlega maður leiksins.
Markaskor KA/Þór gegn Fylki:
Arna Kristín Einarsdóttir 10, Birta Fönn Sveinsdóttir 7, Stefanía Theodórsdóttir 5, Laufey Lára Höskuldsdóttir 4, Harpa Rut Jónsdóttir 2, Þórey Lísa Þórisdóttir 1, Rakel Ösp Sævarsdóttir 1 og Aldís Anna Höskuldsdóttir 1.
KA/Þór - HK 2 (undanúrslit)
Á laugardeginum áttu stelpurnar leik við HK 2. Leikurinn byrjaði frekar rólega og var jafnræði með liðunum fyrstu 20 mínúturnar en staðan var þá 9-9. Þá var þjálfara KA/Þór nóg boðið, þar sem stelpurnar voru klárlega ekki að spila eins og þær eru vanar, og því tók hann leikhlé og lét þær aðeins heyra það og sagði þeim að auka muninn í 4-5 mörk fyrir hálfleikinn. Stelpurnar tóku hann á orðinu og juku muninn í 15-11 en þannig stóðu leikar í hálfleik.
Síðari hálfleikurinn var svo bara beint framhald frá leikhléinu en þær sigu hægt og bítandi framúr HK stelpunum og lönduðu að lokum níu marka sigri 26-17. Með sigrinum voru stelpurnar komnar í úrslitaleikinn sem leika átti daginn eftir. Maður leiksins í þessum leik var klárlega Lína Aðalbjargardóttir en hún hreinlega varði eins og berserkur með yfir 20 bolta varða í markinu.
Markaskor KA/Þór í leiknum:
Arna Kristín Einarsdóttir 9, Stefanía Theodórsdóttir 7, Birta Fönn Sveinsdóttir 5, Laufey Lára Höskuldsdóttir 2, Harpa Rut Jónsdóttir 2 og Aldís Anna Höskuldsdóttir 1.
KA/Þór - HK 1 (úrslit)
Það sást greinilega frá fyrstu mínútu hvort liðið væri hungraðara í sigurinn í þessum leik. Norðanstúlkur léku á alls oddi í vörninni og fengu aðeins eitt mark á sig á fyrstu 20 mínútum leiksins. Lína var líka gríðarlega öflug í markinu í fyrri hálfleiknum. Sóknarleikurinn gekk þó heldur brösuglega en þó náðu norðanstúlkur að setja inn nokkur góð mörk en staðan í hálfleik var 10-4 KA/Þór í vil.
Stelpurnar mættu svo hreinlega ekki til leiks í síðari hálfleik þar sem þær greinilega héldu að sex marka förusta væri nóg til að vinna leikinn. HK komst því inní leikinn og jafnaði metin í 12-12. Leikurinn var svo alveg í járnum þar til á síðustu mínútu leiksins. Staðan var 18-18 og 15 sekúndur eftir og HK með boltann. Norðanstúlkur náðu þó að brjóta og leiktíminn rann út. Því þurfti að grípa til framlengingar.
Í framlengingunni voru KA/Þór stelpurnar bara mun sterkari og komust yfir 22-19 og þannig stóð í hálfleik framlengingarinnar. Það sama var uppi á teningnum í síðari hluta hennar en leikurinn endaði með fimm marka sigri KA/Þór, 26-21 og stelpurnar orðnar B-Íslandsmeistarar í 3. flokki kvenna árið 2014. Það er eiginlega ekki hægt að velja einn leikmann sem mann leiksins í þessum leik heldur var liðsheildin gríðarlega sterk og baráttan mikil. Því er hægt að segja að varnarleikurinn hafi skilað sigrinum í hús.
Markaskor KA/Þór í leiknum:
Birta Fönn Sveinsdóttir 7, Stefanía Theodórsdóttir 6, Laufey Lára Höskuldsdóttir 5, Rakel Ösp Sævarsdóttir 4, Aldís Anna Höskuldsdóttir 2 og Harpa Rut Jónsdóttir 2.