Ævarr Freyr Birgisson er fæddur 16. nóvember 1996. Hann hefur lagt stund á blakíþróttina allt frá sex ára aldri. Hann hefur náð mjög góðum árangri í gegnum tíðina en hann spilar nú með meistaraflokki karla og hefur verið einn af lykilmönnum liðsins undanfarin ár.
Á leiktímabilinu 2014-2015 lék hann í meistaraflokki og lönduðu hann og félagar hans Bikarmeistaratitilinum 2015. Í Mizunodeild BLÍ náðu þeir í 4. sætið og þar með í undanúrslit til Íslandsmeistaratitils. Við uppgjör tímabilsins hjá BLÍ var hann tilnefndur í lið ársins sem besti kantur, fyrir besta móttöku sem og efnilegasti leikmaðurinn.
Ævarr varð í 6. sæti yfir stigahæstu leikmenn Mizunodeildarinnar á síðasta leiktímabili. Það sem af er leiktímabilinu 2015-2016 er hann í 2. sæti yfir stigahæstu leikmenn deildarinnar, bæði í heildarstigafjölda sem og í sóknarstigum. Einnig er hann í 3. sæti yfir bestu móttöku.
Ævarr hefur spilað með U17 og U19 landsliðunum undanfarin ár en í haust tók hann þátt í sínu síðasta NEVZA móti (Norðurevrópumóti) í Danmörku með U19. Hann átti sæti í A-landsliðinu á árinu og spilaði sjö leiki auk tveggja æfingaleikja. Liðið fór til Luxemborgar í byrjun árs og tók þátt í NOVOTEL CUP, æfingaferð til Færeyja í vor og svo var stóra verkefnið, Smáþjóðaleikarnir sem haldnir voru hér á landi í vor og vann liðið til silfurverðlauna sem er besti árangur íslenska liðsins hingað til. Ævarr var valinn til þátttöku í næsta verkefni A-landsliðsins, NOVOTEL CUP nú í byrjun nýs árs, en af persónulegum ástæðum gat hann ekki gefið kost á sér til þess.
Ævarr Freyr hefur sýnt að hann hefur til að bera þann metnað sem þarf til að ná árangri í íþróttinni og er ástundun hans og framkoma til fyrirmyndar í alla staði.