Akureyri með heimaleik gegn Haukum á mánudaginn

Það er stórlið Hauka sem er mótherji Akureyrar á mánudaginn. Fyrir leikinn eru liðin í 5. og 6. sæti Olís deildarinnar, Haukar með 11 stig en Akureyri 10. Liðin mættust í Hafnarfirði 21. september og þar unnu Haukar eins marks sigur í hörkuleik eftir að Akureyri hafði leitt með þrem mörkum í hálfleik.
Haukaliðið hefur verið nokkurð sveiflukennt og afraksturinn það sem af er mótsins hefur trúlega verið undir væntingum þeirra sjálfra, fjórir sigrar, þrjú jafntefli og þrír tapleikir.
Í síðustu tveim umferðum unnu þeir raunar sannfærandi sigra, unnu Fram stórt á heimavelli 26-13 og HK örugglega á útivelli 20-31. Þar á undan töpuðu þeir á heimavelli gegn ÍBV.

Þjálfari Hauka líkt og síðasta tímabil er Patrekur Jóhannesson sem jafnframt er landsliðsþjálfari Austurríkis. Haukar áttu frábært tímabil í fyrra, urðu bikarmeistarar og deildarmeistarar en töpuðu úrslitaeinvíginu gegn ÍBV með einu marki í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn.

Haukar misstu tvo mikilvæga leikmenn í sumar, markahrókurinn Sigurbergur Sveinsson hélt til Þýskalands og Elías Már Halldórsson er sem kunnugt er í herbúðum Akureyrar þetta tímabil. Að öðru leiti má segja að Haukaliðið sé ekki mikið breytt frá því í fyrra. Þeir endurheimtu línumanni Heimi Óla Heimisson frá Svíþjóð og þá fengu þeir ungan og kanski lítt kunnan leikstjórnanda, Janus Daða Smárason frá Danmörku en hann er uppalinn Selfyssingur.

Skytturnar Adam Haukur Baumruk og Árni Steinn Steinþórsson eru markahæstir Hauka í deildinni með 45 og 43 mörk það sem af er. Þar á eftir koma línumaðurinn Heimir Óli Heimisson 27 mörk, skyttan Þröstur Þráinsson 25 mörk og leikstjórnandinn Janus Daði Smárason 24 mörk.

Árni Steinn er gríðarlega öflugur og hefur verið viðloðandi landsliðið upp á síðkastið, Adam Haukur hefur verið að fá stærra og stærra hlutverk í liðinu og þá má geta þess að Janus Daði var nú fyrir stuttu valinn efnilegasti miðjumaður fyrsta hluta Olís deildarinnar af vefnum fimmeinn.is.


Patrekur og lykilmenn hans, Árni Steinn, Adam Haukur og Janus Daði

Í síðustu tveim leikjum Hauka höfðu Adam og Árni steinn reyndar frekar hægt um sig, á móti Fram var Janus Daði Smárason markahæstur með 7 mörk en á móti HK var Tjörvi Þorgeirsson með 8 mörk og Heimir Óli með 6.
Markverðir Hauka þeir Einar Ólafur Vilmundarson og Giedrius Morkunas hafa verið mjög stöðugir í leik sínum á bak við öfluga vörn Haukanna.

Akureyrarliðið endurheimtir Elías Má Halldórsson sem tók út leikbann í síðasta leik og vonandi nær Atli að stilla upp sínu sterkasta liði í leiknum en nokkrir leikmenn voru tæpir fyrir síðasta leik en hafa nú fengið nokkra daga til viðbótar til að koma til baka. Allavega þá er hægt að lofa hörkuleik í Höllinni á mánudagskvöldið en leikurinn hefst klukkan 19:00.