Það er stutt á milli leikja í Olís-deild karla þessa dagana, Íslandsmeistarar ÍBV mæta norður á sunnudaginn og mæta Akureyri. Leikurinn hefst klukkan 15:00 og við hvetjum alla til að mæta enda ætla strákarnir að koma sterkir til baka eftir síðasta leik. Í liði Eyjamanna er sem fyrr Magnús Stefánsson, kenndur við Fagraskóg og fyrrum leikmaður KA og Akureyrar.
Fyrrum liðsfélagarnir Andri Snær Stefánsson og Magnús Stefánsson kljást í leik fyrir ári síðan
Leikir liðanna hafa oft verið sögulegir, þannig vann Akureyri sinn stærsta deildarsigur í sögu félagsins þegar liði mættust í Eyjum 15. mars 2008 en honum lauk með fimmtán marka sigri Akureyrar 28 43.
Vestmannaeyingar létu heldur betur finna fyrir sér hér í Höllinni fyrir nákvæmlega ári síðan og þá mátti Akureyri hins vegar sætta sig við sitt stærsta tap í deildinni, þrettán marka tap 22 - 35.
Liðin mættust síðast í Hafnarfjarðarmótinu í haust og þar sigraði Akureyri með einu marki. Það er ómögulegt að segja hvað gerist á sunnudaginn, kíkjum í Höllina og styðjum strákana!
Á undan leik Akureyrar og ÍBV er annar áhugaverður leikur í Höllinni en klukkan 13:00 mætast Hamrarnir og ÍH í 1. deild karla. Þetta er fyrsti heimaleikur Hamranna á tímabilinu og má búast við að Heimir Örn Árnason leiki með liðinu og jafnvel Hreinn Þór Hauksson en þeir léku báðir með Hömrunum á Opna Norðlenska í haust þar sem Hamrarnir unnu Fram.
Þær fréttir hafa borist að hinn magnaði markvörður Hamranna, Stefán Guðnason hafi lagt skóna á hilluna og verði því ekki með.