Í dag skrifaði KA-maðurinn Almarr Ormarsson undir þriggja ára samning við knattspyrnudeild KA. Almarr, sem er fæddur árið 1988, er að koma aftur til KA eftir 8 ára fjarveru. Hann lék með KA sína yngri flokka og braust inn í meistaraflokk KA ungur að aldri.
Hann fór frá KA sumarið 2008 og gekk til liðs við Fram þar sem hann lék í þónokkur ár. Undanfarin ár hefur hann leikið með Vesturbæjarstórveldi KR og kemur þaðan til KA.
Almarr lék 55 leiki fyrir KA í deild og bikar áður en hann hélt suður. Almar varð tvívegis bikarmeistari, annað skiptið með KR og hitt með Fram. Þá hefur hann leikið 20 landsleiki með yngri landsliðum Íslands.
KA-menn eru gríðarlega ánægðir að fá Almarr í sínar raðir og mun hann hjálpa til í baráttunni í 1. deildinni í sumar.