Andlát

Ingunn Einarsdóttir, mikil afrekskona í frjálsum íþróttum og ekki síður mikil KA kona lést þann 3. nóvember eftir baráttu við illvígan sjúkdóm.

Ingunn hóf að æfa frjálsar íþróttir hjá KA árið 1967 þegar hún var 12 ára gömul og þegar hún var aðeins 14 ára gömul setti hún 10 Íslandsmet í frjálsum íþróttum. Ingunn hélt áfram að vinna Íslandsmeistartitla og setja Íslandsmet og árið 1971 var hún fyrsti Akureyringurinn til að taka þátt í Evrópumeistaramóti í frjálsum íþróttum.
Eftir það flutti hún til Reykjavíkur þar sem aðstaða á Akureyri til vetraræfinga í frjálsum íþróttum var engin. Ingunn hélt sínu striki og setti hvert Íslandsmetið á fætur öðru á mótum og var sigursælli en nokkur önnur frálsíþróttakona.

Ingunn var á tímabili ósigrandi í spretthlaupum hér á landi og setti fjölda Íslandsmeta í 100 m, 200 m og 400 m hlaupum. Hún átti einnig met í 100 m grindahlaupi og fimmtarþraut og setti eitt árið m.a. 10 Íslandsmet.

Þegar keppnisferli Ingunnar var að mestu lokið fékk KA aftur að njóta krafta hennar því hún þjálfaði þá yngriflokka og kvennaflokka félagsins í frjálsum íþróttum. 
Ingunn var mikill brautryðjandi kvenna í íþróttum og fyrsta afrekskona Akureyrar í frjálsum íþróttum. Hún var einnig góð fyrirmynd og hvatti aðra til dáða. 

Knattspyrnufélag Akureyrar sendir aðstandendum Ingunnar innlegar samúðarkveðjur.