Anna Rakel Pétursdóttir var útnefnd íþróttamaður KA fyrir árið 2017 á stórglæsilegri afmælishátíð félagsins sem fór fram á laugardaginn var. Hún varð hlutskörpust en valið stóð á milli hennar, Mörthu Hermannsdóttur frá handknattleiksdeild og Ævarrs Freys Birgissonar frá blakdeild.
Hér er umsögnin sem fylgdi Önnu Rakel í kjörinu:
Anna Rakel Pétursdóttir er fædd 24. ágúst 1998. Hún hefur æft fótbolta með KA frá því hún var 4 ára. Í yngri flokkum félagsins var hún afgerandi leikmaður í liði sem stóð sig vel á landsvísu. Anna Rakel hefur verið yngri iðkendum góð fyrirmynd en hún hefur síðustu fjögur ár verið í þjálfarateymi yngri flokka KA í knattspyrnu. Hennar helstu styrkleikar eru að hún hefur mikið keppnisskap, góða tækni og frábærar spyrnur. Anna Rakel hefur alla tíð lagt hart að sér til að ná sem lengst og það skilaði sér í því að einungis 15 ára spilaði hún sinn fyrsta leik í Pepsideildinni. Anna Rakel var ein af lykilmönnum í Íslandsmeistaraliði Þór/KA á árinu. Anna Rakel spilaði alla leiki liðsins sem vinstri vængbakvörður í leikkerfinu 3-4-3. Frammistaða hennar í þeirri stöðu gerði það að verkum að hún var í liði ársins bæði á Fotbolti.net og 433.is. Anna Rakel spilaði á árinu fimm landsleiki með U19 ára liði Íslands en alls á hún að baki 24 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands. Anna Rakel er byrjuð að banka á dyrnar hjá A-landsliðinu og var hún í fyrsta sinn valin í 20 manna landsliðshóp nú í haust í fyrsta leik Íslands í undakeppni HM. Anna Rakel hefur verið samningsbundin leikmaður KA frá því í ársbyrjun 2015. Anna Rakel er mikill KA-maður, góður liðsmaður og öflugur íþróttamaður sem átti frábært ár og er því vel að því komin að vera kandidat fyrir hönd knattspyrnudeildar í vali á Íþróttamanni KA 2017.