Atli Sveinn Þórarinsson hefur verið ráðinn þjálfari 2. flokks karla en honum til aðstoðar verður Steingrímur Örn Eiðsson.
Atli Sveinn er einn af reyndustu leikmönnum sem KA hefur átt. Hann á að baki 147 leiki fyrir KA í deild og bikar en fyrir rúmlega ári síðan þurfti hann að leggja skóna á hilluna. Tvítugur fór Atli Sveinn til Örgryte í Svíþjóð þar sem hann lék árin 2000-2004. Bestu ár ferilsins voru þó líklega á Hlíðarenda en þar var hann lykilmaður í liði Vals 2005-2012 þar sem hann varð bæði Íslands- og bikarmeistari. Atli Sveinn hefur alla tíð verið mikill leiðtogi bæði innan sem utan vallar enda bar hann fyrirliðabandið hjá Val og KA með miklum sóma. Þá ber að nefna að Atli spilaði níu landsleiki fyrir A-landsliðið á árunum 2002-2009.
Þegar Atli Sveinn kom aftur að spila fyrir KA árið 2013 hóf hann einnig að þjálfa yngriflokka félagsins við gott orðspor.
Síðasta tímabil var reynsluríkt fyrir Atla Svein sem þjálfara en hann tók við Dalvík/Reyni og stýrði þeim í 3. deild ásamt því að klára UEFA A-þjálfaragráðu KSÍ.
Við bjóðum Atla Svein velkominn til starfa en framundan er spennandi ár hjá efnilegum 2. flokki félagsins.