Baráttuleikur gegn ÍR á fimmtudaginn

Eftir tvo útileiki í Vestmannaeyjum er aftur komið að heimaleik í Höllinni. Að þessu sinni er það spútnikliðið úr Breiðholtinu, ÍR sem mætir norður yfir heiðar. Þetta verður þriðji leikur liðanna á tímabilinu. ÍR vann fyrsta leikinn á sínum heimavelli 27-23 en Akureyri vann þegar liðin mættust í Höllinni, 32-30.

Fyrir leikinn situr ÍR í 5. sæti deildarinnar með 16 stig en líkt og um fleiri lið hefur spilamennska þeirra verið dálítið köflótt í vetur, þeir hafa átt flotta leiki en dottið niður þess á milli. ÍR fór með sigur í síðustu þrem deildarleikjum, gegn HK, Fram og FH en töpuðu þar á undan fyrir Val og Haukum. Þá stóðu ÍR-ingar í ströngu um síðustu helgi í fjórðungsúrslitum Coca-Cola bikarsins þar sem þeir unnu fyrst sannfærandi sigur á Aftureldingu en töpuðu sjálfum úrslitaleiknum í hörkuleik gegn Haukum.

Síðasti heimaleikur Akureyrar var gegn FH og er óhætt að segja að þeir sem voru þar viðstaddir fengu eitthvað fyrir sinn snúð. Akureyri fór það með magnaðan baráttusigur, með marki á lokasekúndum leiksins.

Þegar tölfræði ÍR liðsins er skoðuð þá er fátt sem kemur á óvart. Það eru alltaf sömu aðilar sem bera uppi markaskorun liðsins. Hornamaðurinn, Sturla Ásgeirsson hefur skorað 102 mörk og stórskyttan Björgvin Hólmgeirsson 84 stykki. Þetta eru leikmenn sem ekki má líta af því þá er eins víst að illa fer.

Næstu þrír markaskorara ÍR eru hægri skyttan Arnar Birkir Hálfdánsson 52 mörk, línumaðurinn, Jón Heiðar Gunnarsson með 50 mörk og leikstjórnandinn Guðni Már Kristinsson 48 mörk.

Þessir fimm leikmenn hafa verið potturinn og pannan í leik ÍR liðsins í allan vetur auk þess sem markverðir liðsins þeir Kristófer Fannar Guðmundsson og Arnór Freyr Stefánsson hafa verið öflugir.

ÍR-ingar söknuðu landsliðsmannsins Ingimundar Ingimundarsonar framan af móti en hann var mættur til leiks á ný og lék síðustu fjóra deildarleiki ÍR. Ingimundur meiddist í upphafi bikarúrslitaleiksins en ekki er vitað hversu alvarleg þau meiðsli eru.

Akureyrarliðið hefur sömuleiðis glímt við meiðsli, alkunna er að Bergvin Þór Gíslason meiddist aftur í Valsleiknum, sínum fyrsta á tímabilinu og sömuleiðis meiddist Hreinn Þór Hauksson í FH leiknum. Báðir hörkuðu þó af sér og tóku þátt í síðasta leik gegn ÍBV. Heimir Örn Árnason missti hinsvegar af þeim leik vegna meiðsla.


Það var barist jafnt innan sem utan vallar þegar liðin mættust síðast

En eins og strákarnir sýndu í síðasta leik gegn ÍR svo og gegn FH á dögunum þá þýðir ekkert annað en að bretta upp ermarnar og berjast til sigurs frá fyrstu mínútu og allt til enda með fulla trú á verkefninu, þá fylgir líka með gleðin og ánægjan sem skiptir öllu máli og smitar frá sér til áhorfenda sem örugglega láta þá ekki sitt eftir liggja. 

2. flokkur með tvo útileiki um helgina
Strákarnir í 2. flokki halda suður og leika þar tvo leiki um helgina. Fyrst gegn Fram á föstudaginn klukkan 20:00 og gegn Selfyssingum klukkan 17:30 á laugardaginn. Strákarnir þurfa nauðsynlega á stigunum að halda þar sem þeir eru í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni í vor.

Með von um að sjá þig í Höllinni,
Leikmenn og stjórn Akureyrar Handboltafélags.