KA/Þór hélt suður með 3. flokk kvenna um helgina en leika átti við FH. Stelpurnar voru búnar að mæta FH liðinu tvisvar í vetur og voru liðin búin að sigra sitthvorn leikinn. FH hafði betur í bikarleik liðanna í nóvember en sá leikur fór 29-28 en þegar liðin léku aftur um síðastliðna helgi hafði KA/Þór betur 23-19, því var vitað að hart yrði barist í þessum leik.
FH byrjaði betur og náði strax góðu forskoti í stöðunni 6-1 eftir um 10 mínútna leik en þá var þjálfara KA/Þór nóg boðið og tók leikhlé. Farið var yfir stöðuna og vörninni breytt. Við þetta efldust norðanstúlkur og minnkuðu muninn jafnt og þétt en FH hafði þó yfirhöndina í hálfleik, 13-10.
KA/Þór fóru vel yfir málin í hálfleik og hálfleiksræðan skilaði greinilega sínu því stelpurnar komu mun betri til leiks og söxuðu þær á forskotið jafnt og þétt. Þegar um 10 mínútur voru eftir komust þær loks yfir í stöðunni 17-18 en FH var ávallt á hælunum á KA/Þór og náðu að jafna metin stuttu síðar. KA/Þór náði að þétta vörnina enn betur og komust tveimur mörkum yfir 18-20 og 19-21. FH minnkaði muninn í 20-21 og átti KA/Þór sókn þegar um 40 sekúndur voru eftir, sú sókn fór forgörðum þegar um 12 sekúndur voru eftir og FH hélt í sókn. KA/Þór náðu þó að brjóta á FH en þær náðu samt skoti á markið sem Lína Aðalbjargardóttir varði í stöngina og leiktíminn rann út. Niðurstaðan því 20-21 sigur KA/Þórs í æsilegum leik.
Það var sigurviljinn og baráttan sem skóp sigurinn en stelpurnar sýndu gríðarlegan karakter með því að koma til baka eftir að hafa byrjað illa og áttu sigurinn fyllilega skilið.
Mörk KA/Þór: Birta Fönn Sveinsdóttir 11, Stefanía Theodórsdóttir 4, Berghildur Hermannsdóttir 2, Aldís Anna Höskuldsdóttir 2, Laufey Lára Höskuldsdóttir 1, Arna Kristín Einarsdóttir 1.